Þroskahjálp fagnar stofnun Mannréttindastofnunar Íslands

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að Alþingi hafi nú samþykkt stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar.
 
Mikilvægt er að öflug stofnun, sjálfstæð og óháð stjórnvöldum hvers tíma, hafi það hlutverk að efla og vernda mannréttindi á landinu.
 
Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags og- vinnumarkaðsráðherra eiga þakkir skildar fyrir að halda þessu máli ötulega á lofti og tryggja framgang þess á þingi.
 
Í nýsamþykktum lögum um Mannréttindastofnun Íslands segir að stofnunin hafi eftirlit með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og kveður samningurinn einmitt á um að komið skuli á fót slíkri stofnun. Nú þegar Mannréttindastofnun hefur verið sett á laggirnar, verður vonandi ráðist í að lögfesta samninginn, sem allt of löng bið hefur verið á.
 
Þetta er því mikið framfaramál og um mjög mikilsverð tímamót að ræða – ef stofnunin verður nógu vel fjármögnuð og mönnuð til að sinna hlutverki sínu vel.