Efling í þjónustu og stuðningi við fötluð börn af erlendum uppruna

Þroskahjálp hefur fengið styrk frá Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra, til þess að efla þjónustu og stuðning við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra. 

Innflytjendum hefur fjölgað mikið á Íslandi undanfarin ár og aukning hefur verið í fjölda umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi.  Á meðal þeirra sem flust hafa til landsins eru fötluð og langveik börn og undanfarin ár hafa komið fram vísbendingar um að aðgengi að upplýsingum og þjónustu fyrir þennan hóp þurfi að bæta. Þetta á ekki síst við um börn með þroskahömlun og skyldar fatlanir.

Þroskahjálp hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu af réttindabaráttu fyrir þennan hóp og því erum við þakklát félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir sýnt traust. 

Markmið verkefnisins er meðal annars að:

  • kortleggja stöðuna og meta hvernig aðgengi er fyrir þennan hóp að upplýsingum,
  • draga úr hættu á því að börn af erlendum uppruna með þroskahömlun og skyldar fatlanir fari á mis við þjónustu sem þau bæði þurfa og eiga rétt á, 
  • auka þekkingu ráðgjafa sem annast upplýsingagjöf til fólks af erlendum uppruna á málefnum fatlaðra barna, réttindum þeirra og stuðningsúrræðum.

Í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti segir: 

„Landssamtökin Þroskahjálp hafa tekið að sér að efla stuðning við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra. Þroskahjálp hefur verið leiðandi í inngildingu fatlaðra innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag og hafa samtökin á undanförnum árum byggt upp töluverða reynslu og þekkingu í vinnu með innflytjendum og flóttafólki.

Þroskahjálp mun einnig sjá um fræðslu og ráðgjöf til fagaðila, sem vinna með flóttafólki, um stöðu fatlaðs flóttafólks og mikilvægi inngildingar þess í samfélagið, þar með talið möguleika til atvinnuþátttöku. Samningurinn hljóðar upp á 8 milljónir króna."

Að auki styrkti ÖBÍ verkefnið um 3 milljónir. Þessi mikilvæga vinna er nú að hefjast og við hjá Þroskahjálp hlökkum til að leyfa ykkur að fylgjast með þróun verkefnisins.