Fabiana og Haukur eru starfsnemar Þroskahjálpar

Þroskahjálp hefur fengið liðsauka í tveimur starfsnemum sem hófu störf í síðustu viku. Starfsnemarnir heita Fabiana Morais og Haukur Hákon Loftsson og eru þau í diplómanámi við Háskóla Íslands. Þau hófu störf 6. mars og verða hluti af Þroskahjálparteyminu næstu vikurnar.

Fyrstu vikuna nýttu þau í hugmyndavinnu, en þau brenna bæði fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks og fyrir því að vera breytingarafl í samfélaginu. Þau munu taka þátt í fjölbreyttum verkefnum samtakanna og eitt af því sem þau vilja leggja áherslu á er hvernig við segjum sögur af árangri, áhugaverðu fólki og óréttlæti í samfélaginu. Þau munu því næstu vikurnar hafa pláss á miðlum Þroskahjálpar fyrir efni sem þau skapa sjálf.

Það byrjar auðvitað á viðtali sem þau tóku við hvort annað til að gefa fólki færi á að kynnast sér betur, þau viðtöl verða birt á næstu  dögum.

Við hjá Þroskahjálp erum heppin að fá þau Hauk og Fabiönu til liðs við okkur og hlökkum til samstarfsins við þau næstu vikurnar.