Skýrsla ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn fötluðu fólki

Mynd: Matheus Bertelli / Pexel.
Mynd: Matheus Bertelli / Pexel.

*Auðlesið neðst*

Í gær birtist skýrsla sem gerð var að beiðni ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn fötluðu fólki og alvarlegar brotalamir í kerfum sem eiga að hlúa að og vernda fatlað fólk, t.a.m. lögreglan, dómstólar og stuðningskerfi brotaþola.
 
Landssamtökin Þroskahjálp, sem og önnur hagsmunasamtök og fatlað baráttufólk, hafa ítrekað bent á skort á gögnum, skort á utanumhaldi og stuðningi við fatlaða þolendur. Þroskahjálp fagnar þó að þessi skýrsla sé komin fram og vona að það leiði til löngu tímabærra aðgerða í málaflokknum.
 
Í skýrslunni kemur fram að ekki er skráð þegar brotaþoli er fatlaður við skráningu mála og því séu engar upplýsingar um fjölda mála á Íslandi. Sagt er frá niðurstöðum erlendra rannsókna, m.a. um viðkvæma stöðu fatlaðra kvenna og barna með þroskahömlun og fárra sakfellinga í málum þar sem þolendur eru fatlaðir. Algengt er að fatlað fólk sem verði fyrir ofbeldi tilkynni það ekki og óttist að þeim verði ekki trúað.
 
Í grundvallaratriðum staðfestir skýrslan að fatlaðir þolendur ofbeldis nýtur ekki þeirrar verndar sem það á rétt á og minni verndar en ófatlað fólk. Við vonum að skýrslan verði til þess að íslensk stjórnvöld byrji að afla gagna um stöðu fatlaðs fólks eins og þeim er skylt samkvæmt Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hlúa betur að fötluðum brotaþolum.
 
 
Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi getur þú haft samband við
  • Réttindagæslu fatlaðs fólks,
  • Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis,
  • Stígamót sem veita þolendum kynferðisofbeldis stuðning eða
  • Kvennaathvarfið, þar sem konur og börn geta fengið að dvelja búi þau við ofbeldi á heimili.
  • Ef þú ert í hættu, hringdu eða sendu skilaboð í 112.
 

*AUÐLESIÐ*

Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi getur þú haft samband við:
  • Réttindagæslu fatlaðs fólks
  • Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis.
  • Stígamót sem veita þolendum kynferðisofbeldis stuðning.
  • Kvennaathvarfið, þar sem konur og börn geta fengið að dvelja búi þau við ofbeldi á heimili.
  • Ef þú ert í hættu þá skaltu hringja eða senda sms í 112.

Ríkis-lögreglustjóri lét gera skýrslu um ofbeldi gegn fötluðu fólki.

Þroskahjálp og margt fatlað fólk og samtök hafa lengi sagt að það vanti upplýsingar um ofbeldi gegn fötluðu fólki og að rannsaka það betur.
Það þarf líka að styðja við fatlað fólk sem verður fyrir ofbeldi.
Þroskahjálp vonar að kerfið verið lagað. Fatlað fólk sem verður fyrir ofbeldi á að fá réttlæti eins og aðrir.
Í skýrslunni er sagt að það sé ekki skráð í kerfið þegar manneskja sem verður fyrir ofbeldi er fötluð. Það eru þess vegna til lítið af upplýsingum.
Í skýrslunni er sagt frá rannsóknum í útlöndum um ofbeldi gegn fötluðu fólki.
Þær rannsóknir segja frá að fatlaðar konur og börn með þroskahömlun eru í viðkvæmum hópi þegar kemur að ofbeldi.
Þær segja líka að það er ólíklegra að vera dæmdur fyrir ofbeldi gegn fötluðu fólki en fyrir ofbeldi gegn ófötluðu fólki.