Óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki í bakvarðasveit

Mynd: Heilbrigðisráðuneytið
Mynd: Heilbrigðisráðuneytið
Vegna fjölgunar COVID-19 smita hefur verið ákveðið að virkja bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
 
Í tilkynningu segir að þetta sé nauðsynlegt til að mæta mönnunarvanda sem skapast getur vegna veikinda eða tímabundinnar sóttkvíar heilbrigðisstarfsfólks ef smit kemur upp á heilbrigðisstofnunum. Biðlað er til heilbrigðisstarfsfólks sem hefur tök á að veita tímabundið liðsinni ef á reynir um að skrá sig í bakvarðasveitina.
 

Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu var sett á fót í upphafi COVID-19 faraldursins þegar ljóst var að mikilvægar heilbrigðisstofnanir gætu lent í mönnunarvanda vegna veikindafjarvista starfsfólks eða fjarvista vegna sóttkvíar. Þetta fyrirkomulag hefur reynst afar vel og skipt sköpum þegar heilbrigðisstofnanir hafa þurft að manna stöður með litlum sem engum fyrirvara. Í ljósi þess að smitum af völdum COVID hefur farið fjölgandi undanfarið og ljóst að mikilvæg heilbrigðisþjónusta getur raskast ef smit koma upp telja heilbrigðisyfirvöld nauðsynlegt að óska eftir heilbrigðisstarfsfólki á skrá í bakvarðarsveitinni sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið ef á reynir.

Nánari upplýsingar og skráning hér