Guðmundur Ármann í pontu á Málþinginu Uppfærsla - Betri þjónustu fyrir fatlað fólk, sem var haldið samhliða landsþinginu.
Nú um helgina, 11. október, héldu Landssamtökin Þroskahjálp landsþing sitt. Það bar helst til tíðinda að Guðmundur Ármann Pétursson var kosinn formaður og tekur hann við af Unni Helgu Óttarsdóttur sem hefur gegnt embættinu frá 2021.
Guðmundur Ármann hefur yfir 30 ára reynslu í málaflokknum og hefur setið í stjórn Þroskahjálpar í fjögur ár sem fulltrúi Félags áhugafólks um Downs heilkennið, þar sem hann er formaður. Guðmundur Ármann var þakklátur traustinu sem landsþingsfulltrúar sýndu honum og nefndi að hann ætli að berjast fyrir því að farið verði að lögum þegar kemur að réttindum fatlaðs fólks. Löggjöfin á Íslandi sé nokkuð góð en ekki sé farið eftir henni.
Guðmundur Ármann er menntaður rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst, með menntun í lífrænum/lífefldum landbúnaði og með meistaragráðu í umhverfisfræði.
Sambýliskona Guðmundar er Dr. Birna G. Ásbjörnsdóttir og eiga þau þrjú börn.
Þroskahjálp færir Unni Helgu, fráfarandi formanni, kærar þakkir fyrir samstarfið og vel unnin störf.