Neyðarfundur með ráðherrum og umsagnir um útlendingafrumvarpið

Nú eru liðnir 11 dagar frá því að við hjá Þroskahjálp sendum frá okkur yfirlýsingu þar sem við lýstum yfir miklum áhyggjum af því hvernig málsmeðferð fatlaðs fólks sem kæmi hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd væri háttað.

Við höfum staðið í ströngu síðan þá að fylgja þessu máli eftir með þá von um að samtölin sem við leitum eftir leiði af sér jákvæðar breytingar. Við höfum fundið fyrir gífurlegri samstöðu frá almenningi í þessum máli og greinilegt að stór hluti þjóðarinnar lætur sig varða hvernig við tökum á móti fötluðu flóttafólki.

Neyðarfundur með ráðherrum og umsagnir um útlendingafrumvarpið
Í síðustu viku skiluðum við hjá Þroskahjálp umsögn um útlendingafrumvarpið í þriðja sinn. Þá tókum við einnig þátt í sameiginlegri umsögn UNICEF á Íslandi, Barnaheilla, Þroskahjálpar og Samfés um sama frumvarp. Þar var fjallað sérstaklega um hvaða atriða þyrfti að horfa til í málum barna á flótta almennt og að breytingar á lögunum mættu aldrei verða til þess að skerða réttindi barna.

Á föstudaginn síðasta, 11.nóvember, fór svo  fram fundur með ráðherrum, sem við hjá Þroskahjálp óskuðum eftir í yfirlýsingu okkar, til að ræða málefni fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd og brottvísunina sem hefur vakið mikil viðbrögð í samfélaginu. Á fundinn komu forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og dómsmálaráðherra. Auk ráðherra sátu fundinn Útlendingastofnun, Kærunefnd útlendingamála og Ríkislögreglustjóri.  Þessi fundur var aðeins fyrsta skref í þessu mikilvæga samtali en líkt og forsætisráðherra sagði í fréttum, þá er ljóst að samráð hefur ekki verið nægilega gott af hálfu stjórnvalda og mikilvægt að skoða þessar framkvæmdir í kjölinn. Við hjá Þroskahjálp höfum í gegnum tíðina gefið kost á okkur í þá vinnu og gerum það svo sannarlega áfram.

Í umsögn okkar um útlendingamál var lögð sérstök áhersla á að skoða þurfi sérstaklega hvaða skyldur leiða af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd. Það þarf að rannska til hlítar bæði hvaða áskoranir fötlun leiðir af sér og að auki þarf að horfa sérstaklega til þeirra aðstæðna sem fatlað fólk er sent í fái það ekki vernd. Í málsmeðferðinni þarf einnig að tryggja fötluðum umsækjendum viðeigandi stuðning.

Í því sambandi bendum við hjá Þroskahjálp á að við höfðum forgöngu um að koma á því verklagi að þegar Rauði krossinn tæki að sér mál fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd væri strax haft samband við réttindagæslu fatlaðs fólks. Réttindagæslan hafði þá það hlutverk að meta hvaða stuðning var nauðsynlegur fyrir viðkomandi og að sækja þann stuðning fyrir hönd viðkomandi.

Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að endurnýja ekki samninga við Rauða krossinn og því færðist talsmannaþjónustan úr þeirra höndum. Við teljum mjög mikilvægt að stjórnvöld tryggi áfram að réttindagæslan geti sinnt sínu lögbundna hlutverki við að tryggja réttindi fatlaðs fólks.

Í máli Útlendingastofnunar, bæði á fundinum sem við sátum og einnig í umræðu í Silfrinu um helgina, kom fram að í hverju máli fari fram einstaklingsbundið mat á því hvort umsækjandi teljist vera í viðkvæmri stöðu. Við hjá Þroskahjálp teljum mikilvægt að Útlendingastofnun geri ítarlega grein fyrir því hvað liggur þessu mati til grundvallar.

Hvað er framundan?
Verkefnin sem eru framundan eru yfirgripsmikil og umræðan hefur verið flókin og erfið.

Við bindum þó miklar vonir við að aðkoma Forsætisráðuneytisins og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis muni liðka fyrir samtali og samráði um málefni fatlaðs fólks á flótta. Forsætisráðuneytið ber ábyrgð á framfylgd mannréttindasamninga og þar með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og því er gífurlega mikilvægt að forsætisráðherra taki þátt í samtalinu. 

Við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp bindum vonir við að í kjölfar nánara samtals og samráð við þá sem bera ábyrgð í þessum málum verði gerðar nauðsynlegar breytingar í málaflokknum. 

 Við höldum ótrauð áfram, bæði í að benda á það sem betur má fara og einnig í að bjóða fram okkar krafta í að tryggja að þessi mál séu unnin af heilindum og með réttinda þessa jaðarsetta hóps að leiðarljósi.