Múrbrjótar 2025. Frá vinstri Sara Rós Kristinsdóttir, Lóa Fastestveit Ólafsdóttir, Jóhanna Brynja Ólafsdóttir, Ágústa Björnsdóttir sem veitti viðurkenningunni viðtöku f.h. Heklu Björk Hólmarsdóttur, Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra.
Árlega veitir Þroskahjálp viðurkenninguna Múrbjótinn þeim aðilum sem hafa unnið markvert starf við að brjóta niður múra, efla mannréttindi og skapa jöfn tækifæri fyrir fatlað fólk í íslensku samfélagi. Viðurkenning er veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks, 3. desember.
Árið 2025 eru veittir þrír Múrbrjótar.
Múrbrjótar 2025:
4. vaktin, hlaðvarp (Sara Rós Kristinsdóttir og Lóa Farestveit Ólafsdóttir) hlýtur Múrbrjótinn 2025 fyrir að varpa ljósi á líf, reynslu og réttindi fatlaðs fólk og fjölskyldna þess. Þessi nýji vettvangur réttindabaráttunnar brýtur niður múra og opnar almenningi innsýn í málaflokkinn og styrkir umræðuna um mannréttindi, aðgengi og jafnrétti.
4. vaktin á Spotify
Jóhanna Brynja Ólafsdóttir hlýtur Múrbrjótinn 2025 fyrir mikilvæga baráttu sína fyrir því að Háskóli Íslands taki fatlaða nemendur inn í diplómanámið á hverju ári. Með elju, hugrekki og óþrjótandi réttlætiskennd hefur Jóhanna Brynja vakið athygli á því hversu miklu máli það skiptir að opna dyr háskólanna upp á gátt fyrir fatlað fólk.
Sjá myndband um baráttu Jóhönnu
Hekla Björk Hólmarsdóttir hlýtur Múrbrjótinn 2025 fyrir að hafa, fyrst einstaklinga með þroskahömlun, tekið við stöðu aðjúnkts við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eftir að hún lauk sjálf diplómanáminu við sama skóla. Hekla er fyrirmynd og brautryðjandi sem hefur nú opnað leið fyrir fatlað fólk inn í háskólasamfélagið.
„Nú! Get ég líka kennt?“ Lokaverkefni Heklu í leiðtogafærni