Múrbrjótar 2023

Dagur Steinn Elvu Ómarsson, einn handhafa Múrbrjótsins í ár, ásamt Unni Helgu Óttarsdóttur formanni …
Dagur Steinn Elvu Ómarsson, einn handhafa Múrbrjótsins í ár, ásamt Unni Helgu Óttarsdóttur formanni Þroskahjálpar, á sviði Þjóðleikhússins við afhendingu Múrbrjótsins við hátíðlega athöfn í gær.

Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar var afhentur í 30. skiptið á alþjóðadegi fatlaðs fólks sem haldinn hátíðlegur um allan heim í gær, 3. desember.

Meginstef dagsins í ár er: Sameinuð í aðgerðum til að bjarga og ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með og fyrir fatlað fólk.

Markmiðið með alþjóðlegum degi fatlaðs fólks er að auka vitund almennings um mikilvægi þess að skapa samfélög án aðgreiningar og að fatlað fólk taki virkan þátt á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra.

Alþjóðlegur dagur fatlaðs fólks var fyrst haldinn árið 1992 af Sameinuðu þjóðunum. Þroskahjálp hélt fyrst upp á daginn 1993 með því að veita Múrbrjótinn þeim sem hafa látið til sín taka við að brjóta miður múra, vinna gegn fordómum og breyta viðhorfum almennings og stuðla að því að allt fatlað fólk fái tækifæri til fullrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra.

Viðurkenningargripirnir, Múrbrjótarnir, eru smíðaðir á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar. Fyrir hönd Þroskahjálpar vil ég þakka þeim kærlega fyrir að hafa smíðað þessa gripi fyrir okkur.

Í ár var var afhendingin með öðru sniði þar sem sem hún var fléttuð inn í hátíðlega dagskrá Listar án landamæra í Þjóðleikhúsinu í tilefni af 20 ára afmæli Listar án landamæra. Fjölleikhúsið og Tjarnarleikhópurinn stigu á stokk og einnig voru ungar fatlaðar konur heiðraðar fyrir að hafa tekið þátt í fyrsta viðburði Listar án landamæra í tengslum við leikritið Jón Oddur og Jón Bjarni.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands setti leikhúsveisluna og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra veitti Múrbrjótana, en þau voru þrjú sem fengu viðurkenninguna í ár.

Dagur Steinn Elvu Ómarsson

Fyrir baráttu sína gegn hindrunum sem mæta fötluðu fólki, staðalímyndum um fatlað fólk og öráreiti sem það verður fyrir í daglegu lífi.

Dagur Steinn hefur í gegnum árin haft óþrjótandi áhuga, elju og þrautseigju við að brjóta niður staðalímyndir um fatlað fólk. Á þessu ári hefur hann sérstaklega beint sjónum að aðstöðu og aðgengi fatlaðs fólks á stærstu útihátíð landsins, Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, með þeim árangri að í framtíðinni verður tekið tillit til fatlaðs fólks og þeirra staðreyndar að í þeim hópi fatlaðs fólk leynast að sjálfsögðu margir öflugir djammarar.

Dagur Steinn hefur á áberandi hátt deilt baráttumálum sínum á samfélagsmiðlum og heldur úti hlaðvarpinu Flogakastið þar sem hann tekur fyrir ýmis mál er varða fatlað fólk almennt og fjallar um líf sitt, íþróttir, áskoranir, gleði og djammið. Hann hefur verið óhræddur að gagnrýna stjórnvöld með hvatningu að gera betur. Þá fyllti hann Bæjarbíó í Hafnarfirði þar sem hann var með uppistand.

Listvinnzlan

Fyrir nýjan skapandi vettvang á sviði inngildingar, menningar, menntunar og lista.

Við Listvinnzluna starfar öflugt teymi listafólks sem hefur inngildingu að leiðarljósi og býr yfir fjölbreyttri reynslu og þekkingu. Listvinnzlan tekur að sér verkefni og ráðgjöf, styður listafólk til þátttöku í listalífi, svo sem við sýningarhald og sölu verka.

Í Listvinnzlunni verður starfsrækt gallerí sem býður upp á vettvang þar sem fatlað fólk getur unnið að list sinni og fengið einstaklingsbundinn stuðning þar sem öll tilheyra og hanna hvert og eitt umgjörð um starf sitt og hafa af því atvinnu.

Hópurinn sem stendur að Listvinnzlunni.

 

Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson og Agnar Jón Egilsson

Fyrir heimildaleiksýninguna „Fúsi, aldur og fyrri störf“.

Nú er í Borgarleikhúsinu verið að sýna heimildarleiksýningu um Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson. Í sýningunnni „Fúsi: Aldur og fyrri störf“. Þar fer Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, Fúsi, yfir ævi sína og valin atriði úr hans fjölbreytta lífi með aðstoð leikara og söngvara. Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem leikrit er sett upp sem er um, eftir og leikið af leikara með þroskahömlun á Íslandi.

Fúsi hefur mætt mörgum hindrunum í lífi sínu sem hafa ekki beygt hann eða bugað heldur eflt hann og hvatt áfram til að lífa lífinu til hins ýtrasta með fötlun sinni og njóta hvers dags. Hann er mikill húmoristi, fótboltaáhugamaður, leikari og lífskúnstner. Hann gefst aldrei upp og er mikil fyrirmynd. Sýningin byggist á viðtölum við Fúsa, sem Agnar Jón frændi hans tók í Covid faraldrinum en þá áttu þeir frændur margar samverustundir.

 

Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson og Agnar Jón Egilsson, handhafar Múrbrjótsins í ár.

 

Við óskum Múrbrjótum Þroskahjálpar ársins 2023 innilega til hamingju með viðurkenningarnar og fyrir það hugrekki, þrautseigju og framsækni sem þau hafa sýnt með orðum sínum og verkum sem hafa brotið stór skörð í vonda hindrana-múrinn.

Þetta var vel heppnuð hátíð í samstarfi við List án landamæra og Þjóðleikhúsið, en miður að ekki hafi verið gert ráð fyrir aðgengi allra að sviðinu. Þetta kristallaðist í því að Dagur Steinn gat með erfiðleikum tekið við viðurkenningunni sinni fyrir bættu aðgengi þar sem ekki var rampur upp á sviðið.

Þetta atvik verður að vera okkur öllum hvatning til að gera betur.