Mikilvægt álit umboðsmanns Alþingis um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks og SRFF!

*AUÐLESIÐ NEÐST*

Nýverið sendi umboðsmaður Alþingis frá sér álit vegna dvalar fatlaðs einstaklings á hjúkrunarheimili. Í áliti sínu kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ákvarðanir stjórnvalda í málinu hafi ekki verið í samræmi við lög og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Álit umboðsmanns, sem er mjög ítarlegt og vel rökstutt, hefur þó ekki aðeins þýðingu hvað varðar dvöl fatlaðs fólks á hjúkrunarheimilum. Álitið varðar túlkun og framkvæmd allra ákvæða laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í álitinu leggur umboðsmaður sérstaka áherslu á skyldur stjórnvalda til að framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en Ísland fullgilti þennan mikilvæga mannréttindasamning árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans.

 Í álitinu segir m.a. um það:

Lög nr. 38/2018 leystu af hólmi eldri lög nr. 59/1992. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018 er nú kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli framfylgja þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, einkum samningi Sameinuðu um réttindi fatlaðs fólks. Af framangreindu leiðir að stjórnvöldum ber að framfylgja samningnum við framkvæmd laganna,

...

Í samningi Sameinuðu þjóðanna er m.a. kveðið á um almennar meginreglur, sem eru leiðandi fyrir aðildarríkin og aðra aðila um túlkun og framkvæmd hans, t.d. meginregluna um virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfræði einstaklinga, þ.m.t. frelsinu til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga. Í 12. gr. samningsins eru lagðar skyldur á aðildarríki samningsins til að veita þeim einstaklingum, sem vegna fötlunar geta ekki sjálfir nýtt gerhæfi sitt, aðstoð. Þá er það markmið laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur, og fyllsta réttaröryggis sé gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.

Landssamtökin Þroskahjálp skora á hlutaðeigandi stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga að kynna sér mjög vel þetta mikilvæga álit umboðsmanns Alþingis!

Gæta þarf að  því að lög, reglur, stjórnsýsla og þjónusta af þeirra hálfu sé í fullu samræmi við álitið og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er á þeirra valdi og á þeirra ábyrgð að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra. Samningur Sameinuðu þjóðanna er tæki sem stjórnvöld hafa til þess og ber að nota hann til að tryggja þau.

Þá skorar Þroskahjálp á stjórnvöld að fara markvisst yfir lög og reglur sem varða með einhverjum hætti sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks, s.s. lögræðislög og lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk til að tryggja að þau sé í fullu samræmi við skyldur og kröfur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin Þroskahjálp ítreka einnig áhuga sinn og vilja til þess að taka virkan þátt í því verkefni með stjórnvöldum. Stjórnvöld hafa skyldur samkvæmt samningi SÞ að hafa náið samráð við fatlað fólk og þau félög sem vinna að réttindamálum þess, þegar lög og reglur sem varða fatlað fólk sérstaklega eru sett.

 

AUÐLESIÐ:

  • Umboðsmaður Alþingis á að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.
    • Stjórnsýsla þýðir öll starfsemi og allt það sem ríki og sveitarfélög gera.
  • Umboðsmaður Alþingis sendi frá sér álit, eða tilkynningu, um mál þar sem fötluð manneskja bjó á hjúkrunarheimili. 
  • Tilkynningin fjallaði líka um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lagði áherslu á hve mikilvægur samningurinn er.
  • Í 12. grein samningsins segir að þau ríki sem hafi ákveðið að fylgja samningum verði að veita fötluðu fólki aðstoð við að taka ákvarðanir um líf sitt á eigin forsendum og að tryggja 
  • Landssamtökin Þroskahjálp skora á ríki og sveitarfélög að kynna sér álit umboðsmanns Alþingis og passa að allt sem þau gera sé í samræmi við það sem umboðsmaður Alþingis sagði og það sem kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Sveitarfélög og ríki bera mikla ábyrgð á að fatlað fólk njóti mannréttinda.
  • Þroskahjálp vill minna á að ríki og sveitarfélög eiga að hafa samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna fyrir og með fötluðu fólki. Þroskahjálp er alltaf tilbúið til að koma að slíkri vinnu.