Með okkar augum aftur á skjánum

12. sería af hinum margverðlaunuðu þáttum, Með okkar augum, hefur göngu sína í dag, miðvikudaginn 17. ágúst á RÚV. 

Þættirnir eru einstakir á heimsvísu, en þáttagerð og umsjón er í höndum fatlaðs fólks í samvinnu við reynslubolta úr bransanum. Í þáttunum hafa orðið til fjölmiðlastjörnur, og fyrirmyndir, sem hafa haft mikil áhrif í íslensku samfélagi. Þættirnir hafa ekki einungis hlotið lof hér heima, heldur voru þeir einnig sýndir á UR í Svíþjóð, sem er hluti af sænska ríkissjónvarpinu í vetur.

Steinunn Ása, einn þáttastjórnenda, sagði í samtali við Þroskahjálp að undirbúningur á seríunni hafi verið frábær og mörg skemmtileg augnablik sem hún hlakki til að deila með áhorfendum. Að hennar mati stendur í ár viðtal við Hildi Guðna, tónskáld, tónlistarkonu og margfaldan verðlaunahafa, upp úr.

Elín Sveinsdóttir, framleiðandi þáttanna segir að í ár sé verið að treysta góða efnisþætti betur í sessi um leið og nýir verða kynntir til leiks. „Aðalatriðið er að gefa þáttagerðarfólkinu okkar meira frelsi í þáttagerðinni og laða enn frekar fram styrkleika hvers og eins þeirra í sjónvarpsþáttagerðinni.“

Hugmyndin að Með okkar augum kviknaði hjá Þroskahjálp fyrir rúmum áratug og hefur verið frábært að fylgjast með þáttunum eflast og dafna. Við hlökkum til að horfa í haust og hvetjum ykkur til að fylgjast með!