Fjölmennt á málþingi um aðstæðubundið sjálfræði

Mynd frá málþinginu, á myndinni er Inga Björk við hliðina á glæru á skjá sem á stendur: Hvað er sjál…
Mynd frá málþinginu, á myndinni er Inga Björk við hliðina á glæru á skjá sem á stendur: Hvað er sjálfræði, þegar samfélagið er alltaf að segja þér beint og óbeint hvað þú ert mikil byrði?

Málþing Þroskahjálpar í samstarfi við Menntavísindasvið og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands fór fram í gær, 9. mars. Málþingið var fjölsótt en um 100 manns mættu  á staðinn ásamt því að fjölmargir fylgdust með í beinu streymi.

Viðfangsefni málþingsins var aðstæðubundið sjálfræði í lífi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir, en tilefnið var útgáfa nýrrar bókar um efnið í ritstýringu Ástríðar Stefánsdóttur, Guðrúnar V. Stefánsdóttur og Kristínar Björnsdóttur.

 

Mannréttindi og tækifæri fatlaðs fólks í samfélaginu eru mikilvægt viðfangsefni að skoða, sér í lagi þegar um er að ræða þann hóp sem Þroskahjálp leggur ríkasta áherslu á í sínu starfi; fólk með þroskahömlun, einhverfu og skyldar fatlanir.

Sjálfræði og sjálfsákvörðunarréttur eru grundvallarþáttur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig að fylgja. Raunin er þó sú að enn vantar upp á að réttindi þessa hóps til sjálfstæðs lífs séu virt að fullu, því var einstaklega ánægjulegt að svo góð mæting væri á málþingið og hversu áhugaverðar umræður spruttu í pallborði og umræðum.

 

Á málþinginu héldu Ástríður og Guðrún, tveir af ritstjórum bókarinnar, kynningu á viðfangsefni bókarinnar og rannsóknum um málefnið. Inga Björk, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks hjá Þroskahjálp, hélt erindi um virði rannsókna um líf fatlaðs fólks og þau Hekla, Ásgeir og Nína voru  með erindi undir yfirskriftinni „Okkar líf, okkar ákvarðanir“.

 

Málþingið endaði svo á pallborðsumræðum, þar sem í pallborði voru

  • Ólafur Snævar Aðalsteinsson
    fulltrúi Átaks – félags fólks með þroskahömlun,
  • Aðalbjörg Traustadóttir
    skrifstofustjóri málefna fatlaðs fólks á velferðarsviði Reykjavíkurborgar,
  • Ástríður Stefánsdóttir
    ein af ritstjórum bókarinnar Aðstæðubundið sjálfræði — Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun,
  • Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
    sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks hjá Þroskahjálp

 

Málþingið var tekið upp og verður birt hér á vefsíðu Þroskahjálpar fyrir áhugasama. Það verður birt innan skamms og við munum deila því á okkar miðlum.

Fyrir þau sem vilja alls ekki missa af, bendum við fólk á að skrá þig á póstlistann okkar hér á síðunni og við sendum tilkynningu þegar upptakan er komin á netið.

Við hjá Þroskahjálp þökkum öllum sem komu í gær og tóku þátt í málþinginu. Við þökkum líka sérstaklega þeim Ástríði, Kristínu og Guðrúnu fyrir ritstjórn á þessari áhugaverðu og mikilvægu bók.