Landsáætlun um innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Mynd af ráðstefnunni í gær, fengin af vef Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.
Mynd af ráðstefnunni í gær, fengin af vef Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Fulltrúar Þroskahjálpar og Átaks tóku í gær þátt í ráðstefnu um gerð landsáætlunar um innleiðingu á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem haldin var á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Mikið verk er fyrir höndum að innleiða samninginn, þó íslensk stjórnvöld hafi undirritað hann árið 2007 og fullgilt 2016. Nú í sumar samþykkti ríkisstjórnin tillögu forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra um gerð landsáætlunar til innleiðingar samningsins.


Mikilvægt skref í innleiðingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Vinnuhópar munu nú taka til starfa og í þeim sitja fulltrúar fatlaðs fólks, stjórnvalda, stofnana og hagsmunasamtaka, þar á meðal fulltrúar Þroskahjálpar í öllum ellefu vinnuhópunum. Verkefnastjórn heldur svo utan um alla vinnuna og framvindan verður metin á árlegu samráðsþingi.

Markmiðið með vinnunni er meðal annars að leggja fram frumvarp til lögfestingar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 2025.

Þroskahjálp mun hér eftir sem hingað til vera í fararbroddi við að þrýsta á um að samningurinn verði að fullu innleiddur og bindur vonir um að landsáætlun þessi verði mikilvægt skref í þá átt.