Könnun sýnir þörf á viðbragðsáætlunum og auknu eftirliti með þjónustu við fatlað fólk

 

Ný útkomin skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) sem gefin var út í kjölfar fyrri fasa frumkvæðisathugunar á búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk, leggur áherslu á að að öll sveitarfélög á landinu útbúi skýrar fræðslu- og viðbragðsáætlanir fyrir starfsfólk sem vinnur í þjónustu við fatlað fólk. Jafnframt þarf allt starfsfólk og stjórnendur að vera meðvitað um tilkynningaskyldu í málaflokknum og tilkynna tafarlaust til réttra aðila ef grunur vaknar um ofbeldi eða vanrækslu. Þannig má tryggja að brugðist sé rétt við og að fatlað fólk njóti þeirrar verndar sem lög, reglur og mannréttindasamningar kveða á um.

 

Frumkvæðisathugun GEV, sem hófst í apríl 2024, náði til allra sveitarfélaga á landinu með spurningalista um sjö lykilþætti í þjónustu við fatlað fólk. Alls bárust svör frá 26 aðilum fyrir hönd 62 sveitarfélaga. Í skýrslunni setur GEV fram tillögur að úrbótum sem brýnt er að hrinda í framkvæmd og byggir þær á svörum frá sveitarfélögunum.  Þar á meðal eru tillaga um skýrar viðbragðsáætlanir, þjálfun og fræðsla fyrir allt Starfsfólk í þjónustu við fatlað fólk. GEV nefnir þessi atriði sérstaklega og dregur fram mikilvægi þeirra í því að auka meðvitund um skyldur í starfi og þær kröfur sem gerðar eru til gæða þjónustunnar.

 

Áætlað er að seinni fasa frumkvæðisathugunar verði lokið á fyrri hluta næsta árs.

 

 

Þroskahjálp kallar eftir auknu eftirliti ríkisins

 

Landssamtökin þroskahjálp vinna að réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks og hafa ítrekað krafist þess að eftirlit með lögbundinni þjónustu við fatlað fólk verði bætt. Niðurstöður frumkvæðisathugunar GEV staðfesta mikilvægi þess.

 

Það er mat Þroskahjálpar að nauðsynlegt sé að ríkið hafi virkt aðhald og eftirlit með þjónustu sveitarfélaganna svo tryggt sé að fatlað fólk fái þá þjónustu sem það á rétt á samkvæmt lögum, reglum og mannréttindasamningum. Sem dæmi má nefna mikilvægi öflugrar réttindagæslu fyrir fatlað fólk hjá hinni nýju Mannréttindastofnun Íslands, auk faglegs eftirlits af hálfu GEV. Slík úrræði eru forsenda þess að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt. Mannréttindi fatlaðs fólks eru oft háð því að viðkomandi fái þann stuðning og þá þjónustu sem hann á lögbundinn rétt á. Eins og Þroskahjálp hefur kallað eftir þarf aðgengi að stuðningi og þjónustu að vera jafnt, óháð því hvar á landinu fólk býr.

 

Aðhald og eftirlit með þjónustu við fatlað fólk er grundvallaratriði til að koma í veg fyrir mismunun. Niðurstöður GEV undirstrika mikilvægi þess að efla eftirlit með þjónustu við fatlað fólk enn frekar.

 

Sveitarfélög þurfa að bregðast við niðurstöðunum

 

Landssamtökin Þroskahjálp árétta einnig mikilvægi þess að sveitarfélög taki slíkar kannanir, úttektir og tillögur alvarlega. Sveitarfélögin þurfa að bregðast við með viðeigandi aðgerðum þegar bent er á brotalöm eða tækifæri til úrbóta í þjónustu við fatlað fólk. Alltof oft hafa góðar skýrslur og gagnlegar tillögur um breytingar endað ofan í skúffu, án þess að nokkuð gerist í kjölfarið. Það verður að breytast, þannig að niðurstöður og ábendingar af þessu tagi leiði til raunverulegra umbóta í þjónustu við fatlað fólk um land allt.

 

Sjá nánar á vef GEV, þ.m.t. umrædda skýrslu