Íslensk stjórnvöld senda fjölskyldu fatlaðs manns úr landi

Hussein fjölskyldan. Hussein Hussein er lengst til vinstri. 
Ljósmynd: Heiða Helgadóttir, fengin af…
Hussein fjölskyldan. Hussein Hussein er lengst til vinstri.
Ljósmynd: Heiða Helgadóttir, fengin af heimildin.is

Í fréttum RÚV í dag hefur það komið fram að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda úr landi fjölskyldu Hussein Hussein, fatlaðs manns sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi. 

Nú á dögunum úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu um að framlengja bann við að vísa Hussein Hussein úr landi, en bannið náði aðeins til hans eins, ekki fjölskyldu hans. 

Það er augljóslega skelfilega ómannúðlegt að ætla að sundra þessari mjög berskjölduðu fjölskyldu með þessum hætti og alveg sérstaklega í ljósi þess að Hussein er fatlaður og þess vegna mjög háður fjölskyldu sinni um líkamlegan, andlegan og félagslegan stuðning.


Í stefnuskrá þeirra tveggja ríkisstjórnarflokka, sem fara með þau tvö ráðuneyti sem mesta ábyrgð bera á þessu sviði, þ.e. dómsmálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, er ekki að ástæðulausu lögð sérstök áhersla lögð á að mannúð skuli höfð að leiðarljósi í málum af þessu tagi:

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir:
Útlendingalöggjöfin þarf á hverjum tíma að byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi þar sem smæð þjóðarinnar er viðurkennd.

Í stefnuskrá VG segir:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónustu við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi.

Landssamtökin Þroskahjálp biðla til íslenskra stjórnvalda að sýna mannúð ekki aðeins í orði heldur í verki og veita fjölskyldu Hussein leyfi af mannúðaráðstæðum til að dveljast áfram hér á landi þannig að hún hafi tækifæri til að veita honum nauðsynlegan stuðning sem hann þarf á að halda.

Óhjákvæmilegt er að horfa til þess að fjölskylda Husseins er hans stuðningsnet og getur hann ekki án hennar stuðnings verið.