Gullkistan fær viðurkenningu Þroskahjálpar

Á myndinni eru 2 af 3 höfundum Gullkistunnar ásamt Unni Helgu, formanni Þroskahjálpar, og Halldóru, …
Á myndinni eru 2 af 3 höfundum Gullkistunnar ásamt Unni Helgu, formanni Þroskahjálpar, og Halldóru, varaformanns Þroskaþjálfafélags Íslands.

Frá árinu 2014 hefur Þroskahjálp veitt viðurkenningu fyrir lokaverkefni til B.A. gráðu í þroskaþjálfafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og vekja athygli á framúrskarandi verkefnum sem nýtast fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir og einhverfu fólki.

Leiðbeinendur lokaverkefna tilkynna þau verkefni sem þeim finnst skara fram úr og tekur dómnefnd við öllum tilnefningum og velur þar úr eitt verkefni. Í dómnefnd eru fulltrúar frá:

  • Þroskahjálp
  • Átaki - félagi fólks með þroskahömlun
  • Þroskaþjálfafélagi Íslands, ásamt fulltrúa frá HÍ.

Tilnefnd voru fimm framúrskarandi verkefni sem öll áttu það sameiginlegt að vera unnin af metnaði og hugmyndaauðgi. Dómnefnd átti sérstaklega erfitt í ár með að velja aðeins eitt verkefni til að veita viðurkenningu.

Það verkefni sem hlaut viðurkenningu í ár er Gullkistan. Gullkistan er borðspil sem er hannað fyrir nemendur sem nýta sér óhefðbundnar leiðir til tjáningar, tákn með tali. Höfundar verkefnisins eru Elísa Marey Sverrisdóttir, Sara Hlín Liljudóttir og Snædís Helma Harðardóttir.

Í umsögn leiðbeinanda kemur fram:

Um er að ræða frumlegt, fallega hannað og vel útfært verkefni sem er ætlað að mæta fjölbreyttum hópi nemenda þegar kemur að námi og félagslegri þátttöku. Þá eykur það gildi verkefnisins að það er einnig hannað með það í huga að nemendur sem nýta sér óhefðbundnar leiðir til tjáningar geti tekið þátt. Með því að hanna spilið með tmt táknum er verið að mæta stærri hópi nemenda en að auki eykur notkun spilsins þekkingu á tmt sem leið til að styðja við tjáningu ólíkra nemenda.  

Við óskum Elísu Marey, Söru Hlín og Snædísi Helmu innilega til hamingju með þetta metnaðarfulla og fallega verkefni. Í verðlaun fá þau peningaverðlaun að upphæð 100.000 krónur. 

Önnur verkefni sem voru tilnefnd:

Að verða 18 ára, hvað þarf að hafa í huga?
Upplýsingasíða og bæklingur fyrir ungt fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og aðstandendur þeirra.
Höfundar: Arna Guðný Valgarðsdóttir og Fríða Rún Gylfadóttir.
 
Félagsfærniborðspilið.
Spil til að efla félagfærni ungmenna.
Höfundur: Fanney Dröfn Magnadóttir
 
Leiðir að aðgengulegu starfsumhverfi.
Hvernig starfólk þykir mikilvægt að aðstoðarfólk þess starfi. Handbók fyrir fólk með þroskahömlun og aðstoðarfólk þess á aðgreindum vinnustað.
Höfundur: Karen Ósk Thomsen Siguraðrdóttir
 
Viltu vera vinur?
Námsefni í félagsfærni fyrir einhverf börn.
Höfundar: Eggert Þorbjörn Böðvarsson, Katrín Ósk Þorsteinsdóttir og Margrét Sæmundsóttir