Fyrirspurn til sóttvarnarlæknis vegna bólusetninga fólks með Downs heilkenni

Mynd: Gustavo Fring, Pexels
Mynd: Gustavo Fring, Pexels

Rannsóknir hafa sýnt fram á að dánartíðni meðal fólks með Downs heilkenni er 10 sinnum hærri en almennt gengur og gerist. (1) 

Landssamtökin Þroskahjálp höfðu vegna þess samband við sóttvarnarlækni til þess að hvetja til þess að hugað verði að því að bólusetja fólk með Downs heilkenni sem fyrst. Þýsk stjórnvöld hafa til að mynda sett fólk með Downs heilkenni í flokk 2 varðandi forgang í bólusetningar. (2)

Hér á Íslandi er þegar hafin bólusetning á fötluðu fólki sem býr á sambýlum, íbúðarkjörnum eða er með NPA samninga. Einhverjir einstaklingar með Downs heilkenni hafa fengið bólusetningu, en það hefur virst handahófskennt.

Mikilvægt er að vanda vel valið þegar ákveðið er hverjir fá bólusetningu fyrst innan þessa hóps, enda er fatlað fólk ekki einsleitur hópur. Sumir eru jafnvel mjög hraustir og ekki í meiri áhættu en aðrir sýkist þeir af COVID-19, þrátt fyrir að hafa mikla stuðningsþörf. Aðrir eru mjög viðkvæmir vegna undirliggjandi sjúkdóma og er fólk með Downs heilkenni sérstaklega viðkvæmt. Vitaskuld er fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir að mörgu leyti í meiri áhættu en gengur og gerist vegna jaðarsetningar, samfélagslegrar stöðu og þjónustuþarfa.

Sóttvarnarlæknir sagði í svari við erindi Þroskahjálpar að einstaklingar með Downs heilkenni muni ekki vera færðir innan þess forgangshóp sem þeir eru í. Á sama tíma og Landssamtökin Þroskahjálp sýna því skilning að stjórnvöld eru í erfiðri stöðu að forgangsraða bóluefni þá er þessi niðurstaða samtökunum vonbrigði þar sem ljóst er að fólk með Downs heilkenni er sérlega viðkvæmt fyrir COVID veirunni og er það byggt á vísindalegum rannsóknum.

 

Heimildir

  1. https://www.sciencemag.org/news/2020/12/covid-19-10-times-deadlier-people-down-syndrome-raising-calls-early-vaccination og  https://www.t21rs.org/results-from-covid-19-and-down-syndrome-survey/
  2. https://www.dw.com/en/covid-german-regulations-on-who-gets-vaccine-first/a-55987647.