Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar fá aðild að samtökunum

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar fengu á nýyfirstöðnu landsþingi aðild að Landssamtökunum Þroskahjálp.

Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar var stofnað árið 2000 og er hlutverk þess að vera stuðningsaðili starfs Tónstofu Valgerðar. Í Tónstofunni, sem stofnuð var árið 1986, fer fram tónlistarkennsla fyrir nemendur sem vegna fatlana og eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning. Félagið telur að aðild að Landssamtökunum Þroskahjálp geti aukið þann slagkraft sem þarf í baráttu Tónstofunnar fyrir jafnrétti til handa nemendahópnum sem glímir við mismunum bæði hjá ríki og borg og stendur því höllum fæti.

Hlutverk Tónstofunnar felst m.a. í því að standa vörð um réttindi fólks með fötlun til að nýta og þróa hæfileika sína og stuðla að virkri þátttöku þeirra í menningarlífi og listum. Við listiðkun hjá Tónstofunni eflist skapandi hugur og hönd, þekking á menningu og og listum, félagsfærni, læsi á umhverfi, hegðun, aðstæður og tilfinningar, þrautsegja, sjálfsstjórn, sjálfstraust og jákvæð sjálfsmynd svo fátt eitt sé nefnt.

Við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp hlökkum til að starfa með Foreldra- og styrktarfélag Tónstofu Valgerðar!