Er réttindagæsla fyrir fatlað fólk á villigötum?

Haukur Arnþórsson
Haukur Arnþórsson

Grein eftir Hauk Arnþórsson stjórnsýslufræðing sem birtist fyrst í Morgunblaðinu 29.1.2026. Birt með leyfi höfundar.

 

Í nýlegri doktorsritgerð Söru Stefánsdóttur, lektors við Háskólann á Akureyri, „Glíma seinfærra foreldra við kerfislægar hindranir út frá réttindamiðaðri nálgun“, kemur fram að seinfærir foreldrar mæta oftar en aðrir andstöðu í kerfinu og fái ekki nógu góðan stuðning. Hátt hlutfall þeirra missir forræði yfir börnum sínum, en slíkum tilfellum væri hægt að fækka. Ritgerðin er okkur áminning um að standa á verðinum fyrir þennan hóp.

Hverjum klukkan glymur í þessu efni er alveg ljóst. Um réttindagæslu fyrir fatlað fólk gilda lög nr. 88 frá 2011 og þau voru um langt árabil framkvæmd af félagsmálaráðuneytinu (áður velferðarráðuneytinu), af níu réttindagæslumönnum þegar best lét – en nú er það Mannréttindastofnun sem framkvæmir þau og mun hún hafa þegið þá fjárveitingu sem fylgdi verkefninu. Verkefnið þótti ekki vel staðsett í ráðuneytinu því umkvartanir sneru gjarnan að ákvörðunum yfirmanna gæslumannanna (sem gerði gæslumennina strangt tekið vanhæfa). Því má rökstyðja að þjónustan eigi best heima í sjálfstæðri stofnun.

Alþingi flutti gæsluna á árinu 2024 til Mannréttindastofnunar Íslands með setningu laga nr. 88/2024. Það er því Mannréttindastofnun sem klukkan glymur. Í Mannréttindastofnun sinna nú þrír starfsmenn réttindagæslunni, og jafnvel þó ekki, eða með hangandi hendi, eins og rakið er hér á eftir. Vilji Alþingis stóð þó aldrei til þess að flutningur þjónustunnar leiddi til veikingar hennar. Það virðist hins vegar hafa gerst við endurskipulagninguna. Byrjum samt á formsatriðunum.

 

Réttindagæsla hjá löggjafarvaldinu

Af mörgum ástæðum, sem ekki verða allar raktar hér, var Mannréttindastofnun falið að annast réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Það er samt verkefni sem heyrir undir félagsmála-ráðuneytið með forsetaúrskurði frá 14. mars 2025, nr. 5/2025. Tæplega verður því sagt að verkaskipting innan framkvæmdarvaldsins sé „eins skýr og kostur er“, svo vitnað sé í lögin um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Í þessu tilviki er verkaskiptingin hreinlega óskiljanleg.

Af því að við erum ekki að tala um að gæslan sé staðsett innan Stjórnarráðsins, Mann-réttindastofnun er ein af stofnunum löggjafarvaldsins (Alþingis). Líta má svo á að réttinda-gæslunni sé útvistað frá félagsmálaráðuneytinu með lögum. Heyrir hún þá undir félagsmálaráðherrann eins og forsetaúrskurður segir fyrir um? Er ráðherrann ábyrgur að lögum fyrir þjónustunni eða Alþingi? Sá sem þetta ritar telur líklegt að endanleg ábyrgð á framkvæmd laganna um réttindagæslu fatlaðs fólks hvíli nú á forseta Alþingis og Alþingi sjálfu.

 

Er þetta stjórnarskrárbrot?

Með lögunum eru skil milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins sniðgengin, en þau byggja á 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins. Löggjafinn hefur að vísu

mörg fleiri verkefni en að samþykkja lög, en hann fer ekki með framkvæmdarvald. Um það þarf varla að deila.

 

Stjórnsýslulög virðast felld úr gildi

Löggjafanum hefur aldrei verið ætlað slíkt. Framkvæmd verkefna sem varða réttindi og skyldur almennings er eðli málsins samkvæmt hjá framkvæmdarvaldinu og um slík verk-efni gilda stjórnsýslulög. Stjórnsýslulög gilda eins og lógískt er aðeins um störf fram-kvæmdarvaldsins, ekki um störf löggjafarvaldsins.

Með skipulagi réttindagæslunnar virðast stjórnsýslulög því ekki gilda í samskiptum Mannréttindastofnunar og fatlaðs fólks. Sé svo, er það mjög ámælisvert og einsdæmi um réttindamissi almennings – og þá þess hóps sem síst skyldi.

Stofnanir löggjafarvaldsins geta ekki með nokkru móti framkvæmt réttindagæsluna.

 

Mannréttindastofnun hefur eftirlit með sjálfri sér

Eftirlitsstofnanir Alþingis fylgjast með framkvæmd laga hver á sínu sviði: Ríkisendur-skoðun með framkvæmd fjárlaga, Umboðsmaður með framkvæmd stjórnsýslumála og nú Mannréttindastofnun með framkvæmd laga og alþjóðlegra skuldbindinga um mannrétt-indi.

Með fyrirkomulaginu er Mannréttindastofnun komin í þá aðstöðu að hafa eftirlit með framkvæmd sjálfrar sín á lögunum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Það gengur auðvitað ekki, því verður að breyta.

 

Réttindagæslan hjá Mannréttindastofnun

Þá er þetta skipulag talið rugla sumt starfsfólk Mannréttindastofnunar í ríminu, þannig að það telur sig einvörðungu eiga að sinna eftirlitshlutverkinu (eins og lógískt er að stofnun hjá löggjafarvaldinu geri) og hafnar því jafnvel að sinna hinni daglegu réttindagæslu með sama lagi og tíðkast hefur. Þannig telja sérfróðir aðilar að framkvæmd laganna um réttindagæslu fatlaðs fólks sé í skötulíki hjá Mannréttindastofnun, ekki aðeins vegna þess að þjónustan sé undirmönnuð með þessum þremur starfsmönnum og þar með langtum veikari en var þegar ráðuneytið framkvæmdi lögin – heldur líka vegna hins að þessir þrír vinna ekki við þá réttindagæslu sem skjólstæðingarnir hafa hingað til getað gengið að – og telja sig jafnvel ekki eiga að gera það. Hafi eðli þjónustunnar breyst eins og hér er rakið, hefur sú breyting ekki verið gerð opinber hingað til – en þetta er þó mál sem ekki má liggja í þagnargildi.

 

Eftirlitsstofnunin þarf að grípa inn í

Ljóst er að eftirlitsaðili með réttindagæslunni (Mannréttindastofnun) þarf að grípa inn í og sjá til þess að þjónustan (hjá Mannréttindastofnun) sé lagfærð og framkvæmd þannig að skjólstæðingunum sé sinnt almennilega. Þannig er strax komið að því að stofnunin hafi eftirlit með sjálfri sér.

Það að skjólstæðingar þjónustunnar eru veikur þrýstihópur sem ólíklegur er til að kæra vanrækslu gagnvart sér skyldar félagsmálaráðuneytið og Alþingi til að hafa frumkvæði að því að styrkja þjónustuna aftur og koma henni fyrir á viðeigandi stað undir Stjórnarráðinu.

 

Lokaorð

Það er ekki góð byrjun hjá Mannréttindastofnun að minnka þjónustu við fatlað fólk og stendur stofnunin frammi fyrir áleitnum samviskuspurningum í því efni. Telur hún sig vera að framkvæma vilja Alþingis?

Að öllu samanlögðu er ljóst að stórbæta þarf réttindagæsluna fyrir fatlað fólk og endur-skipuleggja hvar henni er fundinn staður í stjórnkerfinu. Flest bendir til þess að hún – og einnig Mannréttindastofnun sem slík – eigi best heima undir félagsmálaráðuneytinu og má finna hliðstæður slíkrar staðsetningar.

 

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur