Enginn með skerta starfsgetu á skrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins

Það vekur sérstaka eftirtekt Landssamtakanna Þroskahjálpar að þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar um að ríkið muni ganga á undan með góðu fordæmi og ráða fólk með skerta starfsgetu til hins opinbera benda svör Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, eindregið til að engin slík vinna hafi átt sér stað.
 
Þingmaðurinn lagði fram fyrirspurnir til allra ráðherra þar sem spurt var um fjölda starfsmanna með skerta starfsgetu á skrifstofum ráðuneytanna og stefnumótun vegna slíkra ráðninga, en Bjarni Benediktsson hefur einn svarað. Í svari hans kom fram að enginn með skerta starfsgetu starfar í ráðuneyti hans og að engin stefna hefði verið mótuð. Þetta hlýtur að vekja undrun og mikil vonbrigði þar sem í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir skýrt og afdráttarlaust:
 
„Ríkisstjórnin mun efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu með það að markmiði að skapa sátt um að einfalda kerfið, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Í því samráði munu stjórnvöld fyrst og fremst ræða við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp og stefna að því að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. Fyrsta skref af hálfu stjórnvalda verður að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu en á síðari stigum er mikilvægt að atvinnulífið taki virkan þátt í því verkefni.“
 
Þroskahjálp mun fylgjast náið með svörum hinna ráðherranna. Þeir verða að sýna í verki að loforð þeirra séu ekki innan tóm og að mark sé takandi á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar þeirra. Byrja þarf á réttum enda og tryggja hlutastörf og vinnumarkað án mismununar!
 
Samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar má nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stefnuyfirlysing/