Dóra S. Bjarnason látin

Dóra S. Bjarnason, prófessor emerita í félagsfræði og fötlunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, lést á heimili sínu 5. ágúst sl. 

Dóra var sannkallaður brautryðjandi í að innleiða mannréttindi í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi og aðstandendur þeirra bæði með rannsóknum sínum og í eigin lífi með Benedikt syni sínum. Árið 1985 kynnti Dóra til sögunnar hvernig staðið væri að því  í Bandaríkjunum að efla tækifæri fatlaðs fólk til að stjórna eigin lífi og hafa áhrif í  samfélaginu.  Þessi umræða var gott innlegg í stofnun  umræðuhópa fólks með þroskahömlun sem leiddu síðar til stofnunar Átaks félags fólks með þroskahömlun. Dóra stýrði menntamálanefnd Landssamtakanna Þroskahjálpar um árabil auk þess sem hún skrifaði fjölda greina um málefni fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra í Tímaritið Þroskahjálp og hélt fyrirlestra á málþingum og ráðstefnum sem samtökin stóðu að. 

Árið 2002 fékk Dóra Múrbrjót samtakanna vegna einarðrar baráttu og rannsókna í þágu fólks með fötlun.

Framlag Dóru til mannréttindabaráttu fatlaðs fólks er ómetanlegt og þakka Landssamtökin Þroskahjálp henni innilega fyrir þá miklu einurð og þrautseigju sem hún sýndi í þeirri baráttu sem og farsælt samstarf og samvinnu um árabil.

Benedikt og öðrum ástvinum sendum við innilega samúðarkveðju.