Dómsmálaráðherra afhentar undirskriftir 6000 manns

Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarnar vikur staðið fyrir undirskriftasöfnun og nú hafa 6000 manns skrifað undir hana með áskorun um að yfirkjörstjórnir og samfélagið allt styðji við fatlað fólk í kosningum, tryggi óhindrað aðgengi á kjörstað og komi í veg fyrir fordóma.

Samtökin afhentu  Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, nöfn þeirra sem skrifuðu undir svohljóðandi áskorun samtakanna:

„Ég skora á yfirkjörstjórnir og samfélagið allt að styðja við fatlað fólk í kosningunum, tryggja óhindrað aðgengi á kjörstað og koma í veg fyrir fordóma.“

„Staðreyndin er því miður sú að margt fatlað fólk mætir fordómum og hindrunum í kosningum sem leiða til eða eru til þess fallnar að mismuna því um þessi gríðarlega mikilsverðu lýðræðis- og mannréttindi. það er á ábyrgð samfélagsins, okkar allra, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að breyta því“, segir Bryndís Snæbjörndsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka öllum sem skrifuðu undir áskorunina kærlega fyrir stuðninginn og öllum sem tóku þátt í þessu  mikilvæga og vel heppnaða vitundarvakningar-verkefni með þeim.

Á meðfylgjandi mynd sést Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ásamt Sunnu Dögg Ágústsdóttur frá ungmennaráði Þroskahjálpar, Sunnefa Gerhardsdóttir og Inga Hanna Jóhannsdóttir frá Átaki – félag fólks með þroskahömlun og Bryndís Snæbjörnsdóttir og Anna Lára Steindal frá Landssamtökunum Þroskahjálp.