Fundur með forsætisráðherra um afkomuöryggi fatlaðs fólks

Þroskahjálp, ÖBÍ og Geðhjálp sendu fyrr í mánuðinum frá sér sameiginlega ályktun um afkomuöryggi fat…
Þroskahjálp, ÖBÍ og Geðhjálp sendu fyrr í mánuðinum frá sér sameiginlega ályktun um afkomuöryggi fatlaðs fólks.

Í gær átti Unnur Helga, formaður Þroskahjálpar, fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þar sem umræðuefnið var afkomuöryggi fatlaðs fólks á Íslandi. Með á fundinum voru formaður ÖBÍ og formaður Geðhjálpar, en samtökin sendu fyrr í mánuðinum frá sér sameiginlega ályktun þar sem þau lýstu þungum áhyggjum yfir bágum kjörum og framfærsluvanda fatlaðs fólks.

„Við áttum mjög gott samtal um stöðu fatlaðs fólks og erfiðleika þeirra við að ná endum saman. Ég lagði mesta áherslu á að grunnörorkulífeyrir yrði hækkaður til jafns við almenn laun í landinu. Við hjá Þroskahjálp erum þar helst að horfa til þess hóps fatlaðs fólks sem lifir eingöngu á örorkulífeyrisgreiðslum og hafa takmörkuð tækifæri til að auka tekjur sínar,” segir Unnur Helga um fundinn.

Þroskahjálp, Geðhjálp og ÖBÍ bentu á að þó það sé ánægjulegt að verið sé að skoða almannatryggingakerfið í heild sinni, þá geti þessi hópur ekki beðið lengur eftir leiðréttingu á sínum kjörum. Hér sé um gífurlega mikilvægt mannréttindamál að ræða.

„Það var ánægjulegt að finna áhuga og skilning frá forsætisráðherra, sem sagðist ætla að taka málið áfram. Við treystum því að þetta fari í góðan farveg og munum fylgja þessu eftir, enda stöndum við öll saman um þá hugsjón að skilja engan eftir, " segir Unnur Helga.

Hér má lesa ályktunina sem samtökin sendu frá sér í byrjun febrúar.

Lesa ályktun