Ályktun um afkomuöryggi fatlaðs fólks

Landssamtökin Þroskahjálp, Landssamtökin Geðhjálp og ÖBÍ réttindasamtök senda frá sér sameiginlega á…
Landssamtökin Þroskahjálp, Landssamtökin Geðhjálp og ÖBÍ réttindasamtök senda frá sér sameiginlega ályktun og lýsa yfir áhyggjum af afkomuöryggi fatlaðs fólks.

 

AUÐLESIÐ

Stéttarfélög hafa verið að semja um hærri laun fyrir fólk á vinnumarkaði.
Margt fólk á vinnumarkaði hækkaði í launum um áramótin.

Örorkulífeyrir fyrir fatlað fólk hefur ekki hækkað jafn mikið. Bilið milli fólks á vinnumarkaði og fatlaðs fólks sem fær örorkulífeyri hefur stækkað. Það er ekki sanngjarnt.

Matvara, lyf og húsaleiga hefur hækkað mikið á Íslandi.

Þroskahjálp, ÖBÍ og Geðhjálp hafa áhyggjur af því að fatlað fólk dragist aftur úr og eigi þess vegna erfiðara með að borga reikninga og kaupa mat og lyf.

Þroskahjálp, ÖBÍ og Geðhjálp standa saman í að óska eftir að stjórnvöld hækki örorkulífeyri jafn mikið og laun á vinnumarkaði hækka. Það finnst samtökunum sanngjarnt!

Fatlað fólk á að geta lifað góðu lífi. Fatlað fólk á ekki að hafa áhyggjur af því að geta ekki keypt sér mat og lyf.

ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp og Landssamtökin Geðhjálp lýsa þungum áhyggjum af framfærsluvanda fatlaðs fólks sem flest býr við svo bág kjör að ógerlegt er að láta enda ná saman. Ekkert lát er á verðbólgunni sem nú mælist um 10%. Matvara, lyf og sérstaklega húsnæðiskostnaður hefur hækkað umfram þolmörk. Staðan er bág!

Stór hluti launþega hefur gert skammtímasamninga sem hækka laun þeirra afturvirkt frá 1. nóvember. Fatlað fólk, sem fyrir er með lakari kjör en sem nemur lágmarkslaunum, dregst því enn meira aftur úr og bilið milli launa og örorkulífeyris eykst. Frá 2008 hefur kjaragliðnun orðið ár frá ári, þar sem laun hækka meira en greiðslur almannatrygginga. Í dag munar 80.000 – 150.000 kr. á lægstu óskertu greiðslum almannatrygginga og launatöxtum sé miðað við launatöflur SGS.

Skiljum engan eftir

Það er ekki aðeins réttlætismál að kjör fatlaðs fólks fylgi launaþróun í landinu, það er lífsspursmál. ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp og Landssamtökin Geðhjálp skora á ríkisstjórnina að leiðrétta lífeyrisgreiðslur og hækka um að minnsta kosti 42.000 kr.

Greinargerð

Árið 2007 voru greiðslur almannatrygginga á pari við lágmarkslaun á almennum markaði miðað við einstakling með fyrsta örorkumat yngri en 25 ára og ekki með heimilisuppbót. Frá 2008 hefur kjaragliðnun orðið ár frá ári þar sem laun hækka meira en greiðslur almannatrygginga. Í dag munar 80.000 – 150.000 kr. á lægstu óskertu greiðslum almannatrygginga og launatöxtum sé miðað við launatöflur SGS.

Þrátt fyrir yfirlýstan vilja stjórnvalda undanfarin misseri til að draga úr kjaragliðnun hefur hún aukist.  Frá og með 1. janúar 2022 hafa bæði launataxtar á almennum vinnumarkaði og fjárhæðir almannatrygginga hækkað þrisvar. Hvort sem miðað er við krónutöluhækkanir eða prósentuhækkanir hafa laun hækkað meira en greiðslur almannatrygginga. Á meðan launataxtar hafa hækkað um 70.500 – 88.584 kr. hafa hæstu mögulegu greiðslur til öryrkja (með heimilisuppbót og fyrsta örorkumat 24 ára eða yngri) hækkað um 61.576 kr. og munar því 9.000 – 27.000 kr. Samanburðurinn versnar til muna ef miðað er við lægstu óskertu greiðslur til öryrkja, ekki með heimilisuppbót og fyrsta örorkumat 61 árs eða eldri, því greiðslurnar hafa aðeins hækkað um 46.019 kr. og munar því 24.000 – 42.000 kr.

Undirrituðum þykir rétt að nota hækkanir á launatöxtum í þessum samanburði því greiðslur almannatrygginga eru í raun launataxtar fatlaðs fólks. Þau sem ekki fá greidd laun samkvæmt taxta semja sjálf um sín laun en öryrkjar hafa ekki þann kost.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Héðinn Unnsteinsson, formaður Landssamtakanna Geðhjálp