Almanak ársins 2021 er komið!

Loji Höskuldsson, „Blómabeð í Víðimel (Hagkaups myndin)“ (2018).
Loji Höskuldsson, „Blómabeð í Víðimel (Hagkaups myndin)“ (2018).

Almanak Þroskahjálpar fyrir árið 2021 er komið út og í þetta sinn prýða hin skemmtilegu útsaumsverk Loja Höskuldssonar almanakið. Vegna COVID-19 ganga sölumenn okkar ekki í hús í ár og því biðjum við vini Þroskahjálpar að panta sér eintak í gegnum tölvupóst eða á nýrri vefverslun samtakanna!

Þegar þú kaupir almanak okkar hjálpar þú okkur að standa vörð um réttindi fatlaðs fólks en almanakið er líka happdrættismiði! Á því er númer sem tryggir þér miða í listaverkapotti Þroskahjálpar, en þangað hafa fjölmarga listamenn gefið bæði listaverk og eftirprent af verkum sínum. Þá verða tvö verk eftir Loja Höskuldsson í pottinum!

Smelltu hér til þess að kaupa eintak í vefverslun.

Þú getur líka sent tölvupóst á sala@throskahjalp.is eða hringt í síma 588 9390.

 

Loji Höskuldsson (1987)

Frá útskrift úr Listaháskóla Íslands hefur Loji leitast við, í myndlist sinni, að kanna hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi, tækni sem hann hefur þróað útfrá mömmu sinni en hún er atvinnusaumakona og útsaumssnillingur. Í útsaumi hans er viðfangsefnið fengið úr hversdagsleikanum; sokkar sem þorna á þvottasnúrum, handklæðaofn í bændagistingu, plastpokar í illa hirtum runnum við þunga umferðagötu, plöntur, ávextir og hlutir sem finnast á heimilum.

Loji hefur verið að sýna víðsvegar bæði á Íslandi og erlendis samsýningar og einkasýningar. Framundan er sýning í Safnasafninu á Svalbarðsströnd sumarið 2021.

Frekari upplýsingar um verk hans veitir Hverfisgallerí.