Breytingar á skrifstofu Þroskahjálpar!

 

*AUÐLESIÐ NEÐST*

Anna Lára Steindal hefur verið ráðin verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna  (innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks). Undanfarin ár hefur hún sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði mannréttindamála, m.a. unnið að innflytjenda- og flóttamannamálum á vettvangi Rauða krossins, starfað sem verkefnisstjóri mannréttindamála hjá Akraneskaupstað og sinn fjölbreyttum verkefnum sem fyrirlesari og kennari í fullorðinsfræðslu, einkum á sviði sjálfbærni, fjölbreytileika og jafnra tækifæra í samfélagi. 

Í starfi sínu hjá Akraneskaupstað verkstýrði Anna Lára stefnumótun í mannréttindamálum og kom einnig að mótun fjölmenningarstefnu fyrir Sandgerðisbæ. Árið 2014 fékk hún viðurkenningu Akraneskaupstaðar fyrir framúrskarandi störf að mannréttindamálum. Anna Lára er með meistaragráðu í heimspeki, með áherslu á siðfræði, samskipti og fjölbreytileika. Árið 2019 lauk hún diplómanámi um sjálfbærni og sjálfbærnikennslu frá The Earth Charter Education Center sem hefur aðsetur við Friðarháskólann í Kosta Ríka.

Anna Lára kom inn í starf Þroskahjálpar á síðasta ári við stofnun ungmennaráðs. Hún hefur nú verið ráðin til eins árs til þess að sinna verkefnum er varða málefni fatlaðra barna og ungmenna sem og fatlaðs fólks af erlendum uppruna, en Þroskahjálp hefur síðustu misseri lagt aukna áherslu á að styðja við þessa hópa samfélagsins.

Þá mun Ásta Friðjónsdóttir, fulltrúi á skrifstofu, minnka við sig vinnu vegna aldurs í byrjun febrúar. Á sama tíma styttum við símatíma samtakanna, sem verður nú frá kl. 10-14 alla virka daga.

*AUÐLESIÐ*

  • Anna Lára Steindal var að byrja að vinna hjá Þroskahjálp.

  • Anna Lára var ráðin í 1 ár til þess að sinna þeim málum sem snúast um fötluð börn og ungmenni og fatlað fólk sem er af erlendum uppruna, það eru flótta-fólk, innflytjendur og hælis-leitendur.

  • Anna Lára vann sem dæmi hjá Rauða krossinum, hjá Akranes-kaupstað og í fullorðins-fræðslu. Störf hennar tengjast fjölbreytileika og jöfnum tækifærum.

  • Anna Lára menntaði sig í heimspeki og sjálfbærni.

  • Ásta Friðjónsdóttir sem hefur unnið á skrifstofunni ætlar að minnka við sig í vinnu 1. febrúar. Hún vinnur nú frá klukkan 10 til 2.

  • Tíminn sem starfsfólk hjá Þroskahjálp svarar í símann hefur verið styttur og verður frá klukkan 10 til 2 alla virka daga. Skrifstofan er ennþá opin frá klukkan 9 til 4.