Bindum enda á aðskilnað - ráðstefna í Brussel

Á myndinni eru Birna (Átak), Inga Hanna (Átak), Milan (Inclusion Europe), Jyrki (Inclusion Europe) o…
Á myndinni eru Birna (Átak), Inga Hanna (Átak), Milan (Inclusion Europe), Jyrki (Inclusion Europe) og Unnur Helga (Þroskahjálp).


Dagana 7. - 9. september fóru þær Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Inga Hanna stjórnarkona í Átaki, félagi fólks með þroskahömlun og Birna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Átaks, á ráðstefnu samtakanna Inclusion Europe í Brussel. Ráðstefnan bar heitið End segregation eða Bindum enda á aðskilnað.

Samtökin Inclusion Europe vinna að réttinda- og hagsmunamálum fólks með þroskahömlun og aðstandenda þeirra í Evrópu. Aðild að samtökunum eiga auk Átaks og Þroskahjálpar samtök frá 39 öðrum löndum.


Áhugaverð erindi

Á ráðstefnunni fengu þátttakendur að hlýða á fjölbreytt áhugaverð og áhrifarík erindi fólks frá mismunandi löndum.

Jyrki Pinomaa, forseti Inclusion Europe, setti ráðstefnuna með því að ræða um mikilvægi þess að binda enda á aðskilnað í Evrópu og lagði sérstaklega áherslu á að hætta ætti að hugsa um fólk með þroskahömlun sem hóp, heldur sem einstaklinga. Hann deildi mikilvægi þeirrar vinnu fyrir sig í sínu heimalandi, Finnlandi, en hann á tvo syni sem báðir eru með þroskahömlun.

Elisabeta Moldovan, aktivisti frá Rúmeníu, tók einnig til máls og deildi sinni reynslu af því að hafa alist upp á stofnunum þar til hún náði loks að strjúka þaðan. Í dag starfar hún við það að aðstoða fólk í Rúmeníu við að komast af stofnunum og lifa sjálfstæðu lífi.

Raisa Kravchenko og Olena Kravchenko frá VGO Coalition, reghlífarsamtökum fatlaðs fólks í Úkraínu, héldu erindi þar sem þær sögðu frá ástandinu í sínu heimalandi eftir innrás Rússa og hvernig stríðið hefur haft áhrif á stöðu fólks með þroskahömlun og fjölskyldur þeirra.

Gátu deilt íslenskri reynslu

Ásamt áhugaverðum erindum fóru fram vinnustofur og málstofur sem þær Inga Hanna, Unnur og Birna tóku þátt í. Þar var meðal annars fjallað um leiðir fyrir fólk með þroskahömlun að taka þátt í og skipuleggja aktivisma, en þar deildu stærstu aktivistasamtök fólks með þroskahömlun í Evrópu sinni reynslu.

Það fór einnig fram málstofa þar sem samtök og einstaklingar deildu reynslu sinni af mannréttindabaráttu fyrir fólki með þroskahömlun í eigin löndum og gátu íslensku þátttakendurnir sagt frá Stolt göngunni sem Átak, félag fólks með þroskahömlun, fór fyrir árið 2016. Í Stolt göngunni sameinaðist fatlað fólk og ófatlað í að ganga saman til að sýna sig sjálft og fagna fjölbreytileikanum.

Unnur Helga, formaður Þroskahjálpar, tók svo þátt í vinnustofu þar sem umræðuefnið var réttarstaða til jafns við aðra í samræmi við 12. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ræddar voru leiðir að úrbótum og kerfislegar breytingar til að fatlað fólk standi jafnfætis öðrum á öllum sviðum. Mikið var rætt um skert aðgengi að bankareikningum, aðgengi að rafrænum skilríkjum, sjálfstæðri búsetu og viðeigandi stuðningsúrræða og aðgengi að faglegri aðstoð til að taka ákvarðanir án óæskilegs inngrips.

Að auki héldu Inga Hanna, Unnur og Birna á fund með efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins þar sem rætt var um atvinnumál fatlaðs fólks, sér í lagi fólks með þroskahömlun. Fulltrúar Evrópuþingsins, sem eiga sæti í nefndinni, kynntu þar áherslur sambandsins í þeim efnum og var mikið rætt um verndaða vinnustaði og mikilvægi þess að breyta því að fatlað fólk fái ekki greitt lágmarkslaun fyrir vinnu sína á þeim vinnustöðum.

Áhrifarík ráðstefna og samstaða um breytingar

Ráðstefnan var vel heppnuð í alla staði enda mikilvægt að fólk með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu geti hist í eigin persónu og deilt sín á milli hver staðan er í hverju landi fyrir sig og það sem meira er fundið stuðning og innblástur til að halda vinnunni áfram og finna leiðir til að binda enda á aðskilnað.

Íslensku þátttakendurnir voru innblásnar eftir ráðstefnuna og sögðu að mikil samstaða hefði ríkt um að halda áfram að krefjast breytinga á stöðu fatlaðs fólks um allan heim.