Ávarp formanns við setningu landsþings

Gerður og Friðrik fengu Gullmerki samtakanna
Gerður og Friðrik fengu Gullmerki samtakanna
Landsþing samtakanna var sett í kvöld. Hér má lesa ávarp formanns samtakanna Bryndísar Snæbjörnsdóttur.

Borgarstjóri og aðrir góðir gestir.

 Landsþingið okkar í ár ber yfirskriftina félagasamtök og mannréttindi.

 Mannréttindi varða okkur öll; allt fólk og allir eiga að njóta þeirra. Og það er á ábyrgð okkar allra að standa vörð um mannréttindi okkar og annarra og vinna að framgangi þeirra og verja og styðja þá sem ekki fá þeirra notið.

 Það er ekki alltaf auðvelt en það er alltaf mjög mikilvægt. Það er krefjandi verkefni en það er líka gefandi verkefni.

 Þroskahjálp stendur vörð um mannréttindi fatlaðs fólks og þó að mannréttindi séu mikilvæg fyrir allt fólk þá skiptir baráttan fyrir mannréttindum það fólk mestu máli sem ekki hefur fengið að njóta þeirra til jafns við að aðra.

 Þess vegna eru mannréttindi svo gríðarlega mikilvæg fyrir fatlað fólk.

 Og þess vegna viljum við nú líta í eigin barm og velta fyrir okkur hvernig við getum staðið okkur sem best við að verja og bæta mannréttindi fatlaðs fólks; þörfin er brýn og ábyrgð okkar er mikil.

 Og þó að allt of margar hindranir af manna völdum séu í veginum er markmiðið einfalt og raunar ágætlega orðað í 1. gr. laga um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir:

 „Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

 Þar segir líka að við framkvæmd laganna skuli sérstaklega tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 Þetta eru mikilvæg markmið og falleg orð. En því miður er of oft ástæða til að efast um að stjórnvöld meini þau fyllilega. Of oft er tilefni til að gruna þau um að vilja skreyta sig með yfirlýsingum um að þau vilji „tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi“ en skorti vilja og kjark til að gera þessi göfugu markmið og orð að veruleika  fyrir fólk af holdi og blóði.

 Tilefni til vonbrigða eru því miður of mörg. Síðast í gær gaf niðurstaða í dómi Hæstaréttar í máli fatlaðs manns okkur öllum og öllu fötluðu fólki tilefni til mikilla vonbrigða  – ekki bara fötluðu fólki og aðstandendum þess heldur öllum þeim, sem bera í brjósti sér von um að mannréttindi og velferð sé nokkuð sem öllum beri, en séu ekki forréttindi þeirra sem hafa fulla starfsgetu.

 En við megum ekki missa kjarkinn og við ætlum ekki að gera það. Til þess er allt of mikið í húfi.

 Réttlætið sjálft.

 Ágætu gestir.

 Starfsárið 2013 – 2015 höfum við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp verið að fóta okkur í nýju umhverfi en framkvæmd á lögum um málefni fatlaðs fólks færðist frá ríki til sveitarfélaga í janúar 2011.

 Þessi yfirfærsla á málaflokknum var skref í rétta átt að okkar mati. Við teljum eðlilegt í samfélagi án aðgreiningar að allri félagsþjónustu, hvort sem um er að ræða úrlausn á félagslegum skammtímavanda fólks eða lífslanga þjónustu, að sami aðilinn, þ.e. sveitarfélögin, sinni þjónustunni. Við teljum líka að reynslan hafi sýnt að það sé betra að hafa félagsþjónustuna á einni hendi. En það þýðir þó alls ekki að það fyrirkomulag sé gallalaust. Við yfirfærsluna kom t.a.m. í ljós að í mörgum sveitarfélögum skortir bæði þekkingu og reynslu í málefnum fatlaðs fólks og þá er allt of víða of mikil tilhneiging til þess að sinna þjónustu við fatlað fólk eins og um félagslega skammtímaþjónustu sé að ræða. Fötluðu fólki er því jafnvel ætlað að endurnýja umsóknir um þjónustu og annan stuðning sem það á rétt á með nokkurra mánaða millibili, jafnvel þó að augljóslega sé um stuðning og þjónustu að ræða sem fatlað fólk þarf á að halda í allt sitt líf.

 Þetta þarf strax að laga!

 Við mat á þjónustuþörf hjá sveitarfélögunum er einnig rík sú tilhneiging að meta einstaklinga og þjónustuþarfir þeirra út frá mögulegum stuðningi frá fjölskyldu viðkomandi einstaklings. Þetta fer augljóslega gegn öllum mikilvægustu markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem mælt er fyrir um að stjórnvöldum beri með öllum tiltækum ráðum að stuðla að því að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og fái notið sjálfsákvörðunarréttar með sama hætti og annað fólk. Fullorðinn fatlaður einstaklingur á ekki að vera kominn upp á aðstoð foreldra eða annarra vandamanna. Íslenska stjórnarskráin, lög og reglugerðir eiga að tryggja fötluðu fólki þennan rétt.  En því miður er raunveruleikinn annar. Það er nefnilega í okkar góða landi verið að brjóta gegn þessum mannréttindum fatlaðs fólks allt of víða, allt of mikið og allt of oft.

 Fatlað fólk er á biðlistum eftir þjónustu og er á meðan algjörlega háð aðstoð frá foreldrum og aðstandendum sem geta þá ekki sinnt vinnu og er jafnvel sjálfir komnir á örorku vegna langvarandi álags.

 Kæru gestir.

 Ég ætla nú að fara að ljúka máli mínu en áður en ég geri það get ég ekki látið hjá líða að nefna eitt mál sem brennur á mér og ég veit að það brennur á mörgum fötluðum einstaklingum og astandendum þeirra.

 Jafnræðisreglan góða sem segir að fólk eigi að njóta jafnra tækifæra eins og nokkur kostur er og að ekki megi mismuna fólki á grundvelli ýmissa ástæðna s.s. fötlunar, er rauður þráður í öllum alþjóðlegum mannréttindasamningum.  Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er engin undantekning frá því.

 Jafræðisreglan hefur því þann gríðarlega mikilvæga tilgang fyrst og fremst að verja fólk og hópa fólks sem standa höllum fæti fyrir mismunun og órétti.  Jafnræðisreglan leggur þá skyldu á stjórnvöld að meðhöndla sambærileg tilvik með sambærilegum hætti. En hún leggur líka og ekki síður þá skyldu á stjórnvöld að meðhöndla tilvik sem ekki eru sambærileg í samræmi við þann mismun sem um er að ræða en ekki eins og mismunurinn sé ekki til. Markmiðið er það sama fyrir alla – líf þar sem tækifæri er sanngjörn – en til að ná þessu markmiði verður stundum að taka sérstakt tillit til þeirra sem standa höllum fæti. Fólk sem hefur mikla hagsmuni af ákvörðunum stjórnvalda, og því hvílir rík ábyrgð á herðum stjórnvalda.

 Mér finnst vera allt of algengt að stjórnvöld snúi jafnræðis reglunni á hvolf þegar þau fjalla um mál fatlaðs fólks. Mér finnst allt of mörg dæmi vera um að stjórnvöld skýli sér bak við jafnræðisregluna þegar þau vilja af einhverjum ástæðum ekki meta hvern einstakling, aðstæður hans og þarfir. Í staðinn fella stjórnvöld einstaklinginn inn í einhvern tiltekinn hóp sem þau segja að eigi, vegna jafnræðisreglunnar, allur að meðhöndlast eins. Það má vera að stjórnvöld  einfaldi sér lífið með slíkum heildsölulausnum, en það er allt of oft á kostnað lífsgæða og tækifæra þess fatlaða einstaklings sem í hlut á. Svona á ekki að beita jafnræðisreglunni. Jafnræðisreglan varðar líf fólks, tækifæri þess og mannréttindi, en er ekki hagræðingarregla fyrir sjórnvöld. Stjórnvöld sem taka alvarlega mannréttindi og skuldbindingar sínar samkvæmt mannréttindasamningum vinna ekki svona heldur beita þau jafnræðisreglunni til að vernda mannréttindi einstaklinga sem standa veikt og vinna að farsæld þeirra.

 Fatlað fólk er mjög fjölbreyttur hópur og í raun og veru fjölbreyttari innbyrðis en hópurinn sem ekki er með fötlun. Þarfir fatlaðs fólks fyrir þjónustu eru einnig afar misjafnar. Þetta verða stjórnvöld að skilja og virða og beita valdi sínu samkvæmt því.

 Ágætu gestir.

 Ég hlakka til að taka þátt í þessu landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar með ykkur og í þeirri umræðu og skoðanaskiptum sem við ætlum að eiga. Það mun styrkja okkur. Og ekki veitir okkur af styrknum. Við eigum mikið og mikilvægt verk að vinna. Að tryggja fötluðu fólki mannréttindi.

 „Jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

 Takk fyrir.