Áskorun stjórnar Landssamtakanna Þroskahjálpar á íslensk stjórnvöld

 

 Auðlesið

Stjórn Þroskahjálpar krefst þess að örorku-greiðslur verði strax hækkaðar.

Á Íslandi hefur fatlað fólk fá tækifæri til að vinna.
Þegar fatlað fólk fær ekki vinnu
eru örorku-greiðslur einu tekjurnar sem þau fá.

En örorku-greiðslur á Íslandi eru allt of lágar.
Þess vegna er mjög margt fatlað fólk fátækt.

Örorku-greiðslurnar duga ekki til að borga leigu,
kaupa mat og borga alla reikninga.

Ríkis-stjórnin þarf strax að hækka örorku-greiðslur
svo fatlað fólk geti notið mann-réttinda
sem þau eiga rétt á.

Fatlað fólk á að hafa tækifæri til að vera sjálfstætt.
Fatlað fólk á að geta lifað eðlilegu lífi
eins og allt fólk í sam-félaginu.

Fatlað fólk hefur rétt á að vera ekki fátækt.

Þetta stendur í Samningi sameinuðu þjóðanna
um réttindi fatlaðs fólks.

Ríkis-stjórnin hefur lofað að fylgja þessum samningi
og setja hann í íslensk lög.

Til að fatlað fólk geti notið sinna mann-réttinda
og fengið tækifæri til að lifa eðlilegu lífi
þarf ríkis-stjórnin að gera þetta sem þau lofuðu.

Þess vegna skorar stjórn Þroskahjálpar á ríkisstjórnina
að þau hækki örorku-greiðslur strax.

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á ríkisstjórnina að grípa tafarlaust til aðgerða sem duga til að koma í veg fyrir að vaxtahækkanir og að verðbólga skerði enn meira þau sultarkjör, sem fatlað fólk býr nú við og dæmi það til enn meiri fátæktar.

Stór hópur fatlaðs fólks hefur engar aðrar tekjur en örorkulífeyri og mjög litla möguleika til að auka þær vegna lítilla tækifæra á ósveigjanlegum vinnumarkaði og býr því við verstu kjörin í íslensku samfélagi. Margt fatlað fólk þarf að reiða sig á örorkulífeyri til allrar sinnar framfærslu alla ævi og er því dæmt til fátæktar, eins og grunn-örorkulífeyrir er nú.

Tafarlaus hækkun örorkulífeyris er algjör forsenda þess að fatlað fólk eigi raunhæfa möguleika til að njóta margvíslegra mannréttinda og tækifæra til sjálfstæðs lífs, til jafns við aðra, eins og mælt er fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja.