Ályktun stjórnar vegna fjárlagafrumvarpsins 2020

Ályktun stjórnar Landssamtakanna Þroskahjálpar 7. október 2020

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar lýsir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun 2021–2025 sem ríkisstjórnin hefur lagt fram.

Hvorki í frumvarpinu né áætluninni sjást nokkur merki þess að ætlunin sé að bæta hag þess hóps sem býr við verstu kjörin í íslensku samfélagi; fatlaðs fólks sem þarf að reiða sig á örorkulífeyri til framfærslu alla ævi vegna fötlunar og/eða fárra tækifæra á ósveigjanlegum vinnumarkaði.

Verði frumvarpið og áætlunin samþykkt óbreytt af Alþingi þýðir það að örorkulífeyrisþegar dragast enn meira aftur úr hvað lífskjör varðar og eru dæmdir til áframhaldandi fátæktar.

Þetta er algjörlega óréttlætanlegt og í ekki í nokkru samræmi við það sem segir í stefnuyfirlýsingunni sem ríkisstjórnin setti fram fyrir þremur árum síðan:

„Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.“

Enn bólar ekkert á aðgerðum til að efna þessi fyrirheit stjórnarflokkanna og ef marka má fjárlögin og og fjármálaáætlunina stendur alls ekki til að bæta úr því.

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar mótmælir harðlega því óréttlæti gagnvart fötluðu fólki sem felst í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætluninni.

Stjórnin skorar hér með á ríkisstjórnina og Alþingi að bæta nú þegar þau sultarkjör sem fatlað fólk hefur þannig að þau dugi til lágmarkstækifæra til sjálfstæðs lífs, þátttöku í samfélaginu og annarra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja öllum landsmönnum.