Ályktanir landsþings Þroskahjálpar 2023

AUÐLESIN ÚTGÁFA

Á fjölmennu landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar þann 21. október 2023 voru samþykktar ályktanir með þeim málefnum sem brýnust eru í réttinda- og hagsmunabaráttu fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa lagt áherslu á þessi málefni s.l. ár, og áratugi, margt hefur áunnist en í mörgum málaflokkum er langt í land.

Það er einlæg ósk samtakanna að stjórnmálamenn, bæði á Alþingi og sveitarstjórnarstigi, kynni sér áherslur samtakanna og taki höndum saman með samtökunum að vinna að hagsmunum, tækifærum og réttindum fatlaðs fólks.

Húsnæðismál

Stjórnvöld tryggi fötluðu fólki húsnæði við hæfi.

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að stjórnvöld tryggi að fatlað fólk geti átt eigið heimili. Margt fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir hefur þurft að bíða eftir að fá íbúð, sem það á lagalegan rétt á, árum saman og jafnvel í áratug.

Með þessari óforsvaranlegu og ólöglegu framkvæmd er vegið mjög alvarlega að margvíslegum mikilvægum mannréttindum, s.s. réttinum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs  og tækifærum til að eiga einkalíf og fjölskyldulíf. Þetta er ólíðandi ástand sem ábyrg stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algjöran forgang.

Rafræn skilríki

Stjórnvöld tryggi án frekari ástæðulausrar tafar fullt aðgengi fatlaðs fólks að rafrænum skilríkjum.

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að stjórnvöld setji í algjöran forgang að leysa það neyðarástand sem þau hafa skapað í lífi fólks með þroskahömlun og aðstandenda þeirra vegna innleiðingar rafrænna skilríkja.

Fólki með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir er neitað um rafræn skilríki sem leiðir til þess að það á í miklum erfiðleikum með að nýta réttindi sín og fá mikilvæga þjónustu.

Stafræn framþróun er á fleygiferð og hafa stjórnvöld varið milljörðum í hana. Á sama tíma er alltof lítið tillit tekið til þarfa og hagsmuna jaðarsettra hópa, m.a. fatlaðs fólks.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýr. Tækni á að nota til að einfalda og bæta líf fatlaðs fólks og hana má aldrei nýta til að auka á jaðarsetningu þess.

Geðheilbrigðisþjónusta

Stjórnvöld tryggi að  viðeigandi geðheilbrigðisþjónusta og meðferð við fíkn  standi einhverfu fólki og fólki með þroskahömlun til boða.

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á heilbrigðisyfirvöld að tryggja að fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk fái viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu  og meðferð vegna fíknar til jafns við aðra.

Það er ólíðandi og mjög alvarlegt mannréttindabrot að synja fötluðu fólki um heilbrigðisþjónustu á grundvelli fötlunar.

Hækkun örorkulífeyris

Stjórnvöld hækki örorkulífeyri án tafar til jafns við  lágmarkslaun.

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að örorkulífeyrir verði tafarlaust hækkaður þannig að hann verði jafnhár og lágmarkslaun.