Aðeins 8 komast inn í starfstengt diplómunám HÍ

Mynd tekin af vefsíðu Háskóla Íslands
Mynd tekin af vefsíðu Háskóla Íslands
Háskóli Íslands tekur á ári hverju á móti nemendum í starfstengt diplómunám fyrir fólk með þroskahömlun. Í ár fengu eingöngu 8 nemar skólavist af þeim 16 sem sóttu um það.
 
Á sama tíma og það er afar ánægjulegt að 8 nemar hefji nám við starfstengda diplómanámið við Háskóla Íslands þetta haustið er bagalegt til þess að vita að ekki öll fengu aðgengi að náminu sem sóttust eftir að stunda námið.
 
Landssamtökin Þroskahjálp vilja brýna stjórnvöld til þess að opna háskólann enn frekar þannig að fötluðum ungmennum sem kjósa að halda áfram námi fái til þess tækifæri.  
 
Nám getur verið lykill að frekari tækifærum úti í atvinnulífinu og ekki síst fyrir fatlað fólk. Að fá tækifæri til þess að efla sig og þroska í gegnum nám er dýrmætt og mikilvægt fyrir okkur öll. 
 
Fjárskortur er enn fyrirstaða þess að öll fötluð ungmenni njóti sömu tækifæra og önnur ungmenni til að stunda háskólanám, og það  er algjörlega óboðlegt með öllu. 
 
Á Íslandi er réttur til náms bundinn í lög og eiga þau við öll sem það kjósa.  Ríkisstjórnin vinnur nú að innleiðingu samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks með sérstakri landsáætlun og hyggst lögfesta samninginn á kjörtímabilinu. Það er lofsvert og orð eru til alls fyrst en nú er mjög tímabært að ráðherrar fari að að láta verkin tala.
 

24. gr. samningsins hefur yfirskriftina Menntun og þar stendur skýrum stöfum:  

Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun. … Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.