Ábendingar ríkja SÞ til íslenskra stjórnvalda um mannréttindi fatlaðs fólks

 

AUÐLESIÐ

  • Það var fundur hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem ríki í heiminum, eins og Ísland, tala um hvernig gengur að bæta mannréttindi.
  • Sameinuðu þjóðirnar eru samvinna flestra ríkja í heiminum. 
  • Sameinuðu þjóðirnar gerðu til dæmis samning um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur sagt að þau ætli að fara eftir.
  • Mörg ríki í heiminum sögðu að það þyrfti að laga margt í réttindum fatlaðs fólks á Íslandi.
  • Þau sögðu til dæmis að það þyrfti búa til Mannréttindastofnun á Íslandi til að fylgjast með mannréttindum fatlaðs fólks.
  • Þau sögðu  til dæmis að það þyrfti meiri fræðslu um fatlað fólk á Íslandi.
  • Þau sögðu  til dæmis að það þyrfti fleiri tækifæri til að mennta sig og vinna fyrir fatlað fólk á Íslandi.
  • Allt sem ríki heimsins sögðu að þyrfti að laga eru baráttumál Þroskahjálpar.
  • Við hjá Þroskahjálp erum glöð að fá þessar ábendingar frá ríkjum í heiminum, því þau hjálpa okkur að vinna að mannréttindum á Íslandi.

Nýverið var haldinn fundur á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem íslensk stjórnvöld sögðu fulltrúum ríkjanna frá stöðu mannréttindamála á Íslandi, og tóku við ábendingum um hvernig bæta má stöðuna hér á landi.

Fundurinn var liður í ferli sem kallast Universal Periodic Review og er eins konar jafningjarýni þar sem ríki rýna í stöðu mála hvert hjá öðru. Hvert ríki fer í gegnum þetta ferli á um það bil fjögurra og hálfs árs fresti og er það mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna sem hefur umsjón með því.

Helmingur þeirra 89 ríkja sem gerðu grein fyrir sínum athugasemdum við stöðu mála á Íslandi lagði til að stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar, sem uppfyllir hin svo kölluðu Parísarviðmið sem kveða meðal annars á um fullt sjálfstæði stofnunarinnar, yrði hraðað eins og kostur er. Það kemur ekki á óvart, enda var þessi ábending einnig áberandi í sama ferli þegar það fór fram árið 2016. Enn hefur hefur slík stofnun ekki litið dagsins ljós en samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á það að gerast á yfirstandandi kjörtímabili.

Fjölmargar athugasemdir komu fram sem varða hagsmuni og réttindi fatlaðs fólks sérstaklega. Þannig benda 11 ríki á mikilvægi þess að Ísland fullgildi valkvæða viðaukann við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með fullgildingu hans opnast kæruleið fyrir fólk sem telur að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hefur fullreynt að ná fram rétti sínum innan íslensks stjórnkerfis án árangurs. Með fullgildingu valfrjálsa viðaukans verður virkara aðhald um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks eykst og mannréttindi þess verða betur varin. Þess má geta að 100 ríki hafa nú þegar fullgilt viðaukann. Þetta mikilvæga verkefni er ekki á dagskrá samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þó ályktað hafi verið um það mótatkvæðalaust á Alþingi árið 2016 að því yrði lokið fyrir árslok 2017.

Þá komu fram ábendingar um fjölgun námstækifæra fyrir fatlað fólk, mikilvægi þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks á vinnumarkaði og stuðla að vitundarvakningu um réttindi og hæfileika fatlaðs fólks, bæta fjárhagslega afkomu þess og efla þekkingu á réttindum, aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks meðal lögreglu, dómara og saksóknara. Þá koma einnig fram hvatning til að stuðla betur að skóla án aðgreiningar.

Allt eru þetta atriði sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa barist fyrir og ítrekað bent á og hvatt stjórnvöld til að færa til betri vegar. Það er mikilvægt að fá þennan stuðning við málstað sem Þroskahjálp hefur og mun ótrauð halda áfram að berjast fyrir.