10. Þáttaröðin Með okkar augum

Tíunda röðin af þessi vinsælu og margverðlaunuðu þáttum er nú tilbúin og hefjast sýningar þáttanna miðvikudaginn 12. ágúst kl. 19.40.

 Hópurinn kemur víða við að venju og heimsækir ýmsa staði bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni. 

Þættirnir eiga rætur að rekja til ársins 2010 en þá höfðu Landsamtökin Þroskahjálp frumkvæði að því að halda námskeið fyrir fatlað fólk í þáttagerð fyrir sjónvarp. Námskeiðið var haldið hjá Fjölmennt og í kjölfarið gerði Þroskahjálp samning við Ríkissjónvarpið um sýningar á þáttunum. Markmið þáttanna er að auka sýnileika fólks með þroskahömlun og varpa ljósi á fjölbreytt viðfangsefni þess. Efnistök þáttanna eru fjölbreytt og má þar nefna viðtöl, fræðslu, skemmtun, og margt fleira.

Þátturinn og umsjónarfólk hans hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Árið 2017 hlaut þátturinn Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar og einnig Edduverðlaunin sem menningarþáttur ársins í sjónvarpi.  Þátturinn hefur einnig fengið Múrbrjót Þroskahjálpar og hvatningarverðlaun ÖBÍ.


Elín Sveinsdóttir, dagskrárgerðarkona er framleiðandi og hefur aðstoðað hópinn frá upphafi. 

Látið ekki þessa frábæru þætti fram hjá ykkur fara!