Drottinn blessi heimilið!

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum þann 1. mars.

Mjög margt fatlað fólk hefur ekki aðrar tekjur en örorku­bætur sem eru skammar­lega lágar og það hefur yfir­leitt litla eða enga mögu­leika til að auka tekjur sín­ar, vegna fötl­unar og fárra atvinnu­tæki­færa. Fatlað fólk, sem verður að láta örorku­bætur duga fyrir allri sinni fram­færslu, er tví­mæla­laust fátæk­asti hóp­ur­inn í íslensku sam­fé­lagi. Afleið­ingin er aug­ljós og óhjá­kvæmi­leg: Fatlað fólk nýtur miklu minni lífs­gæða og tæki­færa en aðrir þjóð­fé­lags­þegn­ar.

Í stjórn­ar­skrá lýð­veld­is­ins Íslands seg­ir: „Allir skulu njóta frið­helgi einka­lífs, heim­ilis og fjöl­skyld­u.“  

Og í lögum um þjón­ustu við fatlað fólk með langvar­andi stuðn­ings­þarfir seg­ir:

„Fatlað fólk á rétt á hús­næði í sam­ræmi við þarfir þess og óskir og félags­legri þjón­ustu sem gerir því kleift að búa á eigin heim­ili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátt­töku í sam­fé­lag­in­u.“ 

Á öðrum stað í sömu lögum segir að „fólki sem býr nú á stofn­unum eða her­bergja­sam­býlum skuli bjóð­ast aðrir búsetu­kost­ir.“

Fyrir mjög marga fatl­aða Íslend­inga eru þessi skýru laga­á­kvæði þó bara fal­leg orð á blaði. Raun­veru­leik­inn er allt ann­ar. Mjög margt fatlað fólk er á biðlistum hjá sveit­ar­fé­lögum eftir hús­næði sem það á rétt á að fá og margir hafa verið mjög lengi á biðlistum og eru í full­kominni óvissu um hvenær þeir munu fá þenna lög­bundna rétt sinn upp­fyllt­an. Þessu fólki er þó ekki ein­ungis neitað um tæki­færi til að eiga eigið heim­ili. Marg­vís­leg önnur mann­rétt­indi, sem því tengj­ast óað­skilj­an­lega, s.s. til einka­lífs og fjöl­skyldu­lífs, eru einnig mikið skert.

Vegna þess­ara stað­reynda er sér­stak­lega ömur­legt að hlusta á stjórn­endur ríkis og sveit­ar­fé­laga barma sér sí og æ yfir kostn­aði af þjón­ustu við fatlað fólk og karpa sífellt um hver á að greiða hvað. Fatlað fólk, sem býr við verstu kjörin og hefur minnstu og fæstu tæki­færin í íslensku sam­fé­lagi og fær ekki einu sinni þann skýra rétt sem það á að fá sam­kvæmt lög­um, hefur ekk­ert til þessa unnið og þarf svo sann­ar­lega ekki á því að halda að því sé lýst sem stór­kost­legri fjár­hags­legri byrði á sam­fé­lag­inu. Þessi vesæld­ar­legi söngur stjórn­enda ríkis og sveit­ar­fé­laga lýsir nákvæm­lega sama hug­ar­far­inu og er alveg jafn­lág­kúru­legur og nið­ur­lægj­andi og Örn Arn­ar­son lýsti svo í kvæði sínu um hreppsómag­ann:  

„Líf hans var til fárra fiska met­ið.                                                                                                                                      

Furð­an­legt, hvað strák­ur­inn gat étið.“

Sveit­ar­fé­lög og sveit­ar­stjórn­ir, sem geta ekki eða vilja ekki standa við laga­legar skyldur sínar gagn­vart þeim íbúum sín­um, sem fæst tæki­færi hafa, minnst fá og ekk­ert eiga, ættu nú fyrir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingar í vor að spyrja sig alvar­legra spurn­inga um til­gang sinn og mark­mið. En því miður er ekki lík­legt að þau geri það því að eins og Hall­dór Lax­ness benti á hefur því alls ekki að til­efn­is­lausu verið haldið fram að Íslend­ingar „leysi vand­ræði sín með því að stunda orð­heng­ils­hátt og deila um titt­linga­skít sem ekki kemur mál­inu við; en verði skelf­ingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“

Höf­undur er fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­tak­anna Þroska­hjálp­ar.