Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir, 435. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka velferðarnefnd fyrir að fá frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við það.

Afar mikilvægt er að mjög vel verði vandað til þegar afleiðingar ófrjósemisaðgerðar eru skýrðar fyrir einstaklingum með þroskahömlun og að kveðið verði á um skyldu til þess og hvernig að því skuli staðið með skýrari hætti en gert er í 4. gr. frumvarpsins eða eftir atvikum í athugasemdum við greinina og/eða í reglugerð sem mælt verði fyrir um í lögunum að skuli sett.

Þá er mjög mikilvægt að allra leiða sé leitað til að ekki komi til þess að ófrjósemisaðgerðir séu gerðir á ólögráða einstaklingum, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Landssamtökin Þroskahjálp hvetja velferðarnefnd eindregið til að skoða ákvæði frumvarpsins mög vel m.t.t. þess og hvort setja eigi og megi skýrari ákvæði í lögin til að tryggja það eða eftir atvikum fjalla um það og skýra betur í greinargerð og/eða í athugasemdum í frumvarpinu og/eða í reglugerð sem mælt verði fyrir um í lögunum að skuli sett.

  

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til umsagnar  Landssamtakanna þroskahjálpar um drög að frumvarpinu sem voru birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Velferðarnefnd er hvött til að kynna sé þá umsögn sem var svohljóðandi:

„Í 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Virðing fyrir heimili og fjölskyldu, er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja að fatlað fólk fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi: 

...

að fatlað fólk, þar með talin börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra. 

 

Það er alls ekki að ástæðulausu að sérstaklega og skýrt er kveðið á um þennan rétt í þessum mikilvæga mannréttindasamningi. Ástæðan er einfaldlega sú að sagan og reynsla sýnir svo ekki verður um villst að mikil hætta er á að fatlað fólk fái ekki notið þessa réttar og þurfi að þola margvísleg brot gegn honum og ofbeldi eða þvinganir á þessu sviði.

 

12. gr. samnings SÞ hefur yfirskriftina Réttarstaða til jafns við aðra. Þar er mælt fyrir um ýmsar skyldur sem á stórnvöldum hvíla til að tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. fólk með þrokskahamlanir og/eða skyldar raskanir, fái notið gerhæfis til jafns við aðra og ráðstafanir sem stjórnvöld verða að gera til að tryggja það.   2. og 3. mgr. 12. gr. hljóða svo:


     Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins. 
     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt. 
  (Undirstr. Þroskahjálpar)

 

Í 5. gr. samnings SÞ er kveðið á um jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Í 3. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um skyldur ríkja til að tryggja að fötluðum einstaklingum standi viðeigandi aðlögun til boða. Þar segir:

 

Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 

 

Sé fötluðum einstaklingi ekki tryggð viðeigandi aðlögun þegar það á við telst vera um mismunun á grundvelli fötlunar að ræða. Slík mismunun brýtur gegn grundvallarreglu samningsins og er alvarlegt mannréttindabrot. Slík brot verða svo eðli máls samkvæmt enn alvarlegri þegar um er að ræða mjög mikislverð mannréttindi eins og um er fjallað í þessu frumvarpi.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp eindregið til að í viðeigandi ákvæðum frumvarpsins sem og í greinargerð og athugsemdum með frumvarpinu verði sérstaklega áréttaðar skyldur stjórnvalda til að tryggja að fatlað fólk og alveg sérstaklega fólk með Þroskahömlun og/eða skyldar raskanir fái notið óskerts gerhæfis varðandi allt það sem um er fjallað í frumvarpinu og fái örugglega þann stuðning sem það þarf á að halda til að nýta gerhæfi sitt sem og að tryggt verði að viðeigandi aðlögunar sé sérstaklega gætt gagnvart því við alla framkvæmd á þessu sviði.“


[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlað fólks. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. 

 

Frumvarpið sem umsögnin á við má lesa hér