Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (aðgengi að sálfræðiþjónustu og annarri klínískri viðtalsmeðferð), 8. mál.

Fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu þarf oft á sálfræðiþjónustu að halda ekki síður en annað fólk sem glímir við geðheilbrigðisvanda. Efnahagur fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu er mjög oft afar bágborinn því að mjög margir sem eru með fatlanir af því tagi þurfa að láta örorkubætur duga fyrir allri sinni framfærslu. Eins og velferðarnefnd er kunnugt eru þær bætur mjög lágar og raunar af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Kostnaður við sálfræðimeðferð leiðir því til þess að fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu hefur alls ekki ráð á slíkri meðferð.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Eftir 18 ára aldur hafa einstaklingar ekki sama rétt til niðurgreiðslna og þeir nutu áður og meðan á námi stendur hefur fólk ekki sama aðgang að styrkjum, t.d. styrkjum stéttarfélaga, til að sækja sálfræðiþjónustu og jafnaldrar þeirra á vinnumarkaði.

Nauðsynlegt er í þessu sambandi að líta sérstaklega til þess að þeir sem þurfa að reiða sig á örorkubætur til framfærslu allt lífið vinna sér ekki inn rétt eins og þeir sem virkir eru á vinnumarkaði til niðurgreiðslu á sálfræðimeðferð með aðild að stéttarfélögum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið hvetja Landssamtökin Þroskahjálp velferðarnefnd og Alþingi eindregið til að samþykkkja frumvarpið. Samtökin óska einnig eindregið eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að skýra sjónarmið sín, áherslur og rök í því máli sem hér er til umfjöllunar.

Samtökin fengu frumvarpið ekki sent til umsagnar og beina því þeim tilmælum til velferðarnefndar að tryggt verði að þau fái framvegis frumvörp send til umsagnar sem varða eins mikilsverða hagsmuni fatlaðs fólks og það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.

 

Frumvarpið sem umsögnin á við má lesa hér