Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2010, um bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að frumvarp þetta skuli hafa verið lagt fram til kynningar og samráðs. Samtökin hafa lengi barist fyrir því að fram fari nauðsynlegt og fullnægjandi uppgjör hvað varðar vistun fatlaðra barna. 

Inngangur.

Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að tilefni og nauðsyn lagasetningar er að fram fari  lokaupgjör sanngirnisbóta vegna sólahringsvistar fatlaðra barna á stofnunum sem rekin voru á ábyrgð hins opinbera. Samkvæmt frumvarpinu eiga lögin að gilda til 31. desember 2023.

Af framansögðu er ljóst að þessum lögum er einvörðungu ætlað að ná til ákveðins hóps og að bæta fyrir misgjörðir sem sá hópur varð fyrir. Í skýrslu vistheimilsnefndar um vistun barna á Kópavogshæli eru þær ályktanir dregnar að stjórnvöld hafi vanrækt að skapa skilyrði til að halda uppi lögbundnum kröfum um aðbúnað barna og af þeim sökum hafa skapast veruleg hætta á því að börn hafi þurft að þola illa meðferð, sem m.a. fólst í að börn voru vistuð með  á fullorðnu fólki. Í skýrslunni kemur einnig fram að telja verði að hlutaðeigandi stjórnvöld og tilteknir yfirstjórnendur hafi vanrækt eftirlitsskyldur sínar.

Vitheimilanefnd komst að eftirfarandi niðurstöðu í skýrslu sinni um aðstæður barna á öðrum vistheimilum en Kópavogshæli:

Ekki er talin ástæða til að að leggja í jafnítarlegar og tímafrekar úttektir á þeim stofnunum sem út af standa og í fyrri málum. Litið er svo á að nægjanleg vitneskja sé fyrir hendi um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og um það sem fór úrskeiðis eða betur mátti fara.  Með skýrslu visheimilnefndar hafi farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina.   

Sérstaða fatlaðra barna hvað varðar vistun er sú að þau börn bjuggu að jafnaði við þær aðstæður um lengri tíma og fátítt var að barn sem hafði verið vistað flyttist burt af vistheimili. Þau ólust þar upp í flestum tilvikum og héldu áfram að búa þar á fullorðinsárum þar sem tækifæri þeirra sem lögráða einstaklingar til að hefja sjálfstætt líf utan vistheimilis voru afar takmarkaðir.

Þegar sanngirnisbætur voru greiddar þeim sem höfðu verið vistaðir á Kópavogshæli sem börn fór upphæð bótanna einvörðungu eftir tímalengd vistunar. Ekki var gerð nein tilraun til að sanreyna að skaði sem þeir einstaklingar höfðu orðið fyrir væri til kominn vegna illrar meðferðar eða ofbeldis. Ljóst er að miklum erfiðleikum er háð, m.a. vegna fötlunar viðkomandi einstaklinga, að sannreyna það. Markmið þessarar lagasetningar er, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, m.a. það að gætt verðijafnræðis fyrir fatlað fólk sem var vistað á barnsaldri á Kópavogshæli og á öðrum sambærilegum stofnunum fyrir fötluð börn.“

Þar sem, eins og fram hefur komið, hér er verið að leggja fram lagafrumvarp sem nær til hóps sem um margt er ólíkur þeim hópi sem lög nr. 26/2007 áttu að uphaflega að ná til, er eðlilegt að í nýjum lögum verði gildissviði og skilyrðum fyrir greiðslu sanngirnisbóta breytt til samræmis við aðstæður þess hóps sem lögin eiga taka til samkvæmt frumvarpinu.      

Nokkrar athugasemdir varðandi einstakar greinar frumvarpsins.

Með vísan til  þess sem að fram er rakið er gerð athugasemd varðandi gildissvið laganna samkvæmt 1 gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að greiðsla bóta miðist við að skaði sem barn hafi orðið fyrir við vistunsé til kominn vegna illrar meðferðar eða ofbeldis. Lagt er til að í stað þess sé kveðið á um að skaðinn sé til kominn vegna vanrækslu hvað varðar aðbúnað og ófullnægjandi eftirlits þannig að ekki var tryggt að komið væri í veg fyrir illa meðferð og ofbeldi.

Gerð er athugasemd við 3. gr. frumvarpsins varðandi skilyrði sanngirnisbóta og er lagt til að greinin hljóði svo:

Greiða skal sanngirnisbætur úr ríkissjóði á grundvelli laga þessara miðað við lengd þess tíma sem vistmaður dvaldist þar sem aðbúnaður var ófullnægjandi og skortur var á eftirliti til að koma í veg fyrir illa meðferð og varanlegan skaða af þeim sökum.

Með varanlegum skaða er átt við varanlegar, neikvæðar líkamlegar, sálrænar eða félagslegar afleiðingar.

Gerð er athugasemd við 1. mgr. 4. gr. varðandi fjárhæðir sanngirnisbóta. Lagt er til að 1. tl. hljóði svo:

Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal litið til tímalengdar vistunar.

Lagt er til að 2. tl. 1. mgr. 4. gr. verði felldur niður.

Lagt er til að 2. mgr. 9 gr. verði felld niður. 

 

Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sé rétt til að koma frekari athugassmdum og ábendingum á framfæri varðandi frumvarpið á síðari stigum og þegar það verður til meðferðar á Alþingi.

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér