Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um barnalög (réttur til umönnunar), 79. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um barnalög (réttur til umönnunar), 79. mál

        13. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og á heimsmarkmiðum SÞ.

Landssamtökin Þroskahjálp styðja þau sjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og taka undir mikilvægi þess að rétturinn til umönnunar sé sjálfstæður réttur barns fremur en eingöngu réttur foreldra sem ræðst af ráðningarsambandi þeirra við vinnuveitendur. Slík breyting tæki með augljósum hætti ríkari mið af því sem er barni fyrir bestu, líkt og barnasáttmáli SÞ og samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks kveða á um. Í 7. gr. samningsins segir: „Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu."

Sjálfstæður réttur barns til umönnunar vegna veikinda eða slysa væri afar mikilvægur fötluðum börnum, sem glíma við heilsubrest eða veikindi.

Landssamtökin Þroskahjálp styðja því heils hugar að frumvarpið verði samþykkt.

Samtökin benda einnig á að afar mikilvægt er að í íslensk lög verði sem fyrst tekin skýr ákvæði, sem banna mismunun vegna tengsla (e. discrimination by association), s.s. við fatlaða einstaklinga en mikil hætta er á mismunun af því tagi gagnvart aðstandendum fatlaðra barna almennt og sérstaklega á vinnumarkaði þar sem þeir njóta ekki viðeigandi aðlögunar. Þannig mismunun er algengust gagnvart konum, sem annast umönnun barna og annarra ættingja í mun ríkari mæli en karlar, eins og rannsóknir sýna. 

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

 

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi frumvarpið.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

 

Nálgast má lagafrumvarpið sem umsögnin á við hér.