Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni
22. maí 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það emginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin fagna áformum um að setja reglugerð um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. Það er m.a. mjög mikilvægur þáttur til að jafna aðstöðu foreldra á vinnumarkaði.
Mjög mikilvægt er að öll sveitarfélög í landinu bjóði upp á frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. Samtökin telja einnig afar mikilvægt að sveitarfélögum verði skylt að bjóða öllum fötluðum börnum og ungmennum upp á frístund óháð rekstrarformi þess skóla sem þau sækja.
Mikilvægt er að þjónusta sé veitt á öllum dögum öðrum en lögbundnum frídögum. Mikilvægt er að taka mið að einstaklingsbundinni þjónustu- eða stuðningsáætlunar og er sérstaklega ánægjulegt að í 8. gr. reglugerðardraganna komi fram að þegar um er að ræða miklar stuðnings- og umönnunnarþarfir þurf að huga sérstaklega að orlofstímanum og að ekki verði rof á þjónustu. Mikilvægt er að frístundaþjónusta sé opin allan daginn strax þegar skólastarfi lýkur á vorin í grunn- og framhaldsskólum.
Einnig er nauðsynlegt gt að fötluð börn og ungmenni hafi aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra. Dæmi eru um að foreldrar og/eða aðstandendur hafa þurft að sækja börn í skóla og keyra í frístund sem er óboðlegt með öllu.
Samtökin vilja vekja athygli á því að sveitarfélög bera ábyrgð á þjónustu fatlaðra barna og ungmenna samkvæmt lögum nr. 38/2018. Í síðasta kennaraverkfalli var brotalöm á þjónustunni og að mati Þroskahjálpar uppfylltu ýmis sveitarfélög ekki lögbundnar þjónustuskyldur þegar verkfallið stóð yfir.
Í 10. gr. reglugerðardraganna kemur fram að ef fyrirséð er að samþykkt þjónusta geti ekki hafist innan mánaðar frá samþykkt umsóknar skuli leiðbeina umsækjanda um önnur úrræði á biðtíma. Samtökin leggja eindregiðtil að í stað leiðbeina verði í ákvæðinu mælt fyrir um að sveitarsfélög skuli bjóða önnur úræði.
Landssamtökin Þroskahjálp leggja mjög mikla áherslu á að þess verði sérstaklega vel gætt við framkvæmd þeirra áforma, sem hér eru til umsagnar, að taka fullt tillit til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera og lýsa miklum vilja til samráðs við félags- og húsnæðismálaráðuneytið við það verkefni. Samtökin vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin vísar til má finna hér