„Það er bara eins og allir elski þættina okkar“

Viðtalið birtist fyrst í 2. tölublaði Tímaritis Þroskahjálpar 2019. 

 

„Þegar við vorum að byrja þessa vegferð okkar skildu fáir ef nokkrir hvert við vorum að fara – og þeir viðmælendur sem við báðum um að koma fram í þáttunum héldu margir hverjir að verið væri að gera grín að þeim,“ segir Elín Sveinsdóttir sjónvarpsframleiðandi sem hefur frá árinu 2011 stjórnað upptökum á þáttaröðinni MEÐ OKKAR AUGUM. „Núna vilja allir koma fram í þáttunum – og það sem meira er, þeir líta á það sem heiður. Slík er breytingin á innan við áratug. Það sem þótti óhugsandi og fáránlegt fyrir örfáum árum er núna sjálfsagður og mikilvægur þáttur í fjölmiðlaflórunni,“ bætir hún við.

Verðlaunuðustu þættir í sögu RÚV

Engir þættir í sögu RÚV hafa hreppt jafn mörg verðlaun og þáttaröðin MEÐ OKKAR AUGUM sem er hugarfóstur Elínar og eiginmanns hennar, Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem hentu á lofti hugmynd Friðriks Sigurðssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssamtakanna Þroskahjálpar um að gefa fólki með þroskahömlun tækifæri í sjónvarpsþáttagerð. Elín og Sigmundur, þaulvön sjónvarpsþáttagerð á þeim tíma – og uppalendur fjölfatlaðrar og langveikrar stúlku – gripu boltann á lofti og eftirleikinn þekkja landsmenn; þætttirnir MEÐ OKKAR AUGUM hafa breikkað samfélagið og sýnt það í sinni raunverulegu mynd, vakið athygli á styrkleikum fólks með þroskahömlun og hversu mikilvæg samfélagsþátttaka þeirra er.

Mynd frá upptökum Með okkar augum. Í forgrunni sést upptökumyndavél og í gegnum skjá hennar sést Andri Freyr Hilmarsson sjónvarpsmaður taka viðtal við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra

Ófyrirséð sjónarhorn á tilveruna

„Og svo hafa orðið til allt öðruvísi sjónvarpsstjörnur en við höfum lengst af átt að venjast,“ segir Sigmundur Ernir, handritshöfundur þáttanna. „Þetta einlæga áhugafólk um lífið, fólk sem skoðar kannski tilveruna með eilítið öðrum augum en vaninn hefur verið – og það er svo mikilvægt, að fá einmitt þetta ófyrirséða sjónarhorn á tilveruna sem umsjármenn þáttanna færa okkur í þáttunum.“ Og hann er ekki í nokkrum vafa um að þættir á borð við MEÐ OKKAR AUGUM hafa breikkað ásýnd samfélagsins, sýnt það í raunverulegra ljósi. „Þættirnir eru veruleikatékk,“ segir hann ákveðinn.

Viðtökur þáttanna með ólíkindum

„Viðtökur þáttanna á seinni árum hafa auðvitað verið með ólíkindum,“ segir Elín Sveinsdóttir og minnir þar á upphrópun eins þáttastjórnandans á tökustað, „það er bara eins og allir elski þættina okkar“ en þar sé kannski kjarnann að finna; enginn er eyland, allir vilji vita af öðrum, hlutskipti fólks og lífsreynsla af öllu tagi skipti allan almenning mjög miklu máli. Og þar er fólk með þroskahömlun engin undantekning, frekar en örvhentir og rauðhærðir, hávaxnir eða síðhærðir; góðar og áhugaverðar sögur af lífi fólks hafi nefnilega ekkert með þroska og frama að gera heldur skipti meira máli að sigrast á aðstæðum og sýna styrkleika sína í verki fremur en að einblína á veikleikana.“

Upplýsing í stað þöggunnar

„Fjölmiðlun síðustu áratuga hefur að mestu snúist um upplýsingu í stað þöggunar, afhjúpun frekar en innmúrun – og að endurspegla samfélagið allt, ekki aðeins einhvern gamlan viðurkenndan hluta þess,“ bendir Sigmundur Ernir á og segir að þegar hann var að hefja fréttamennsku upp úr 1980 hafi samfélagið þóst vera fullkomið; enginn alkóhólismi, ekkert þunglyndi, engin samkynheigð, ekkert heimilisofbeldi, engin með þroskahömlun, en allt svo slétt og fellt á yfirborðinu. „Við vorum ekki svona óspennandi. Við vorum alla vega“ segir hann og segir fjölbreytnibyltingu síðustu ára hafa gert samfélagið miklu áhugaverðara.“

Fjölbreytnin er sannari

„Það eru engin smáforréttindi að ferðast um landið og leita uppi algerlega frábært listafólk og íþróttamenn úr hópi þroskahamlaðs fólks og sjónvarpa svo æðislegum hæfileikum þess en sýna svo þess á milli hvað sívaxandi atvinnuþátttaka okkar fólks er að gera mikið fyrir bæði hagkerfið og samfélagslega upplifun almennings,“ segir Elín og nefnir aðalsmerki þáttanna: „Við erum saman í þessu samfélagi, hvert með sínu lagi – og fjölbreytni okkar gerir það bæði kröftugra, líflegra og sannara.“