Svört skýrsla um framkomu við fatlað fólk á vinnumarkaði

Ásta Snorradóttir nefndarformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður aðgerðarhóps, afhentu Ásmu…
Ásta Snorradóttir nefndarformaður og Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður aðgerðarhóps, afhentu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, skýrsluna, ræddu niðurstöður hennar og þær aðgerðir sem hún kallar á. Mynd tekin af vef Stjórnarráðsins.

Ný skýrsla ríkisstjórnarinnar um einelti og áreitni á íslenskum vinnumarkaði Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði hefur verið kynnt. Þar kemur m.a. fram að þátttakendur sem eru með fötlun og skerta starfsgetu eru mun líklegri til að hafa orðið fyrir einelti en ófatlaðir þátttakendur og án skerðingar, eða 35% á móti 20%. Þá voru fatlaðir þátttakendur líka mun líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað en aðrir þáttakendur eða 21% á móti 15% hjá þeim sem eru án skerðinga. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að þátttakendur með fötlun og skerta starfsgetu upplifi að jafnaði minni stuðning frá stjórnendum og meira óöryggi í starfi en ófatlaðir þáttakendur og án skerðinga.

 

Í frétt á síðu stjórnarráðsins þar sem greint er frá niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að aðgerðarhópur sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skipaði í ágúst 2018 til tveggja ára í því skyni að vinna gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum muni meðal annars taka mið af niðurstöðum skýrslu Félagsvísindastofnunar, og eftirfarandi ákvæði tilgreind sértaklega: 

  • bæta þurfi stefnur fyrirtækja í þessum efnum, kynningu og eftirfylgni.
  • bæta þurfi verklagsreglur á vinnustöðum.
  • efla þurfi fræðslu og leiðsögn.
  • auka þurfi meðvitund um stöðu ólíkra hópa á vinnumarkaði.
  • bæta þurfi stuðning við þolendur.
  • huga þurfi að samspili vinnustaðamenningar og eineltis og áreitni

Niðurstöður skýrslunnar eru í samræmi við rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis sem og hér á landi og því ætti viðkvæm staða fatlaðs fólks ekki að koma á óvart. Vegna þess hve miklar líkur eru á einelti, áreitni, kynferðislegri áreitni og stuðningsleysi yfirmanna furða Landssamtökin Þroskahjálp sig á að ekki séu tilgreindar sértækar aðgerðir til að bregðast við því alvarlega ástandi sem fatlað fólk á vinnumarkaði býr við. Í skýrslunni segir: „Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að tilefni er til ítarlegrar kortlagningar á stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði og reynslu þeirra af einelti, áreitni og ofbeldi.“ Landssamtökin Þroskahjálp hvetja yfirvöld til þess að bregðast við þessari ábendingu hið snarasta.

Hér má sjá tilkynningu Stjórnarráðsins um skýrsluna.
Hér má sjá frétt RÚV um skýrsluna.