Minningardagur um helförina: Helförin og fatlað fólk

Credit: SelfMadeHero © Barbara Yelin
Mynd fengin frá Holocaust Memorial Day Trust
Credit: SelfMadeHero © Barbara Yelin
Mynd fengin frá Holocaust Memorial Day Trust

*Efnisviðvörun: greinin fjallar um helförina og ofbeldi/hatursglæpi gegn fötluðu fólki*

Árni Múli Jónasson skrifar: 

Nasistar myrtu skipulega um 250 þúsund fötluð börn og fullorðið fatlað fólk á árunum 1939 til 1945 samkvæmt áætlunum sínum um líknardráp. Þessi skipulögðu fjöldamorð byggðust á hugmyndafræði um kynþætti, þar sem litið var svo á að fatlað fólk ógnaði heilsu og hreinleika þýska kynstofnsins. Fatlað fólk var álitið gagnslaust fyrir þjóðfélagið og ætti því ekki skilið að lifa. Líf þess væri einskis virði.

Á þessu þýska plakati (frá um 1938) er hvatt til stuðnings við líknardráp nasista til að halda niðri kostnaði af þjónustu við fatlað fólk. Á plakatinu segir: „Þessi einstaklingur, sem hefur ættlægan sjúkdóm, mun kosta samfélagið 6o þúsund mörk. Það eru líka þínir peningar, félagi.”

Þýskt áróðursplakat frá 1938

Þessi hugmyndafræði illskunnar náði að skjóta rótum meðal annars vegna þess að fólk og „fræðimenn“ hvarvetna í heiminum var uppfullt af kenningum um kynbætur þjóða og mannkyns. Þessi skelfilega saga má aldrei gleymast og við verðum að draga rétta lærdóma af henni.

Öll mannréttindi standa og falla með einni einfaldri hugmynd: Allt fólk á jafnan rétt til lífs og tækifæra í lífinu, burtséð frá kynferði þess, kynþætti, fötlun, litarhætti, kynhneigð, þjóðerni, ætterni eða stöðu að öðru leyti.

Við megum aldrei sofna á verðinum eða lifa í þeirri blekkingu að þessi hugmynd sé meitluð í stein og óbreytanleg um aldur og ævi. Hún er bara mannanna verk og raunar er mjög stutt síðan þjóðir heims féllust á að hún ætti að vera grundvöllur í samskiptum þeirra og áréttuð í lögum allra ríkja. Það gerðist fyrir um 70 árum síðan þegar Evrópa og stór hluti heimsbyggðarinnar hafði verið lagður í rúst í hrikalegu stríði. Stríðið var við ríki, sem stjórnuðust af hugmyndum um að tilteknir kynþættir væru öðrum æðri og sumir þeirra væru réttdræpir, eins og gyðingar og Róma-fólk, og öðru fólki þyrfti að útrýma, eins og fólki með þroskahömlun, geðfötluðum, öðru fötluðu fólki og samkynhneigðum.

Þessi hugmynd um jafnan rétt til lífs, tækifæra og annarra mannréttinda er í raun mjög brothætt, eins og önnur mannanna verk. Það er því alls engin trygging fyrir því að hún verði alltaf grundvöllur samfélaga, hvorki okkar né annarra og ýmislegt ógnar nú þessari hugmynd og hefur gert það frá því að hún var fyrst orðuð í alþjóðlegum mannréttindasamningum. Harðstjórar og lýðskrumarar hafa verið óþreytandi í tilraunum sínum til að grafa undan henni og þeir munu halda því áfram. Sú ógn sem að mannréttindum stafar frá háværum pólitíkusum er oftast augljós og sem betur fer eru margir sem halda vöku sinni og eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að verja hugmyndina um jafnan rétt fólks og almenningur lætur sig það varða.

Aðrar ógnanir við jafnan rétt og mannréttindi eru hins vegar „lúmskari“ ef svo má segja og því á margan hátt hættulegri.

Erfaðvísindin gera það nú til að mynda kleift að skima fóstur og greina hjá þeim ýmis einkenni. Það er líklegt að í náinni framtíð verði mögulegt að skima fóstur til að meta bæði líkamleg og andleg einkenni og „frávik“ af ýmsu tagi frá einhvers konar normi, sem er auðvitað ekki til í öllum fallega fjölbreytileika mannkynsins. Þetta er svo hægt að nýta til að velja einstaklinga sem hafa hin og þessi einkenni,  sem fólki kann að finnast „eftirsóknarverð“ eða sem falla í kramið hjá stjórnvöldum og samræmast vel þeirri hugmyndafræði sem þau kunna að aðhyllast.

Er ekki mjög tímabært að við förum að ræða þetta en látum ekki bara tæknina og þróun hennar stjórna ferðinni? Ætlum við að taka því sem tæknin finnur upp á, hvort sem það er til góðs eða ills fyrir okkur, börnin okkar og mannkynið allt?