Atla Viðar Engilbertsson - Listamaður Listar án landamæra 2013

Eftir miklar umræður valdi dómnefndin listamanninn Atla Viðar Engilbertsson en hann hefur getið sér gott orð fyrir verk sín. Atli er fjölhæfur myndlistamaður og rithöfundur með einstakan stíl. Ferill hans spannar langt tímabil og er á fjölbreyttum vettvangi ýmissa listgreina. Atli sýndi á List án landamæra 2012 síðasta vor í Hafnarborg, Menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar.

Á hverju ári er valinn listamaður hátíðarinnar hjá List án landamæra hvers verk prýða kynningarefni hátíðarinnar það árið. Árið 2011 var það Guðrún Bergsdóttir útsaumslistakona sem hlaut tilnefninguna og sýndi hún verk sín í Hafnarborg í Hafnarfirði. Ísak Óli Sævarsson var listamaður hátíðarinnar 2012 og sýndi verk sín í Norræna húsinu.

Í þetta sinn bárust 5 tilnefningar. Í dómnefnd sátu fulltrúar Listasafns Reykjavíkur, Kling og Bang gallerís og Ísak Óli Sævarsson listamaður hátíðarinnar 2012 ásamt Sævari Magnússyni.

Eftir miklar umræður valdi dómnefndin listamanninn Atla Viðar Engilbertsson en hann hefur getið sér gott orð fyrir verk sín. Atli er fjölhæfur myndlistamaður og rithöfundur með einstakan stíl. Ferill hans spannar langt tímabil og er á fjölbreyttum vettvangi ýmissa listgreina. Atli sýndi á List án landamæra 2012 síðasta vor í Hafnarborg, Menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Verk Atla munu prýða allt kynningarefni Listar án landamæra 2013 og mun Atli sýna ný verk á sýningu í sal Myndlistafélagsins á Akureyri í lok apríl.

Um verk Atla Viðars Engilbertssonar

Endurnýting hefur í gegnum tíðina verið sem rauður þráður í verkum bróður míns, Atla Viðars (f. 9. sept. 1961). Það sem kom honum á sporið á sínum tíma var leiðsögn Kristínar Sigurmarsdóttur í hnýtingum í handmenntatímum í Héraðsskólanum á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þegar heim kom fór Atli að nota baggabönd og snæri til að gera hnýtiverk og klippimyndir úr pappa því ekki var annan efnivið að hafa. Hann sýndi hnýtiverk í fyrsta sinn opinberlega á N-Art, norrænni samsýningu í Eimskipafélagsskemmunni við Borgartún sumarið 1986. Litríkum hnýtiverkunum var þar komið fyrir í stóru indíánatjaldi sem var gert úr svörtum ruslapokum. Atli notaði einnig bylgjupappa á þessum tíma í sín verk og gerði nokkuð nákvæmlega útfært líkan af bæ foreldra okkar, Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd, úr bylgjupappa sem hann málaði með akrýlmálningu. Um þetta leyti var Atli að prófa sig áfram með fjölbreytt formlistaverk; skúlptúra, húsgögn, lágmyndir og geómetrísk málverk sem hann sýndi m.a. á Hólmavík og í sínum gamla skóla í Reykjanesi við Djúp. Ekki hafði hann notið neinnar tilsagnar í myndlist utan þeirrar sem hann naut um skamma hríð í handmenntatímunum í Reykjanesi, en áhuginn var sannarlega fyrir hendi.

Straumhvörf urðu á listferli Atla þegar Níels Hafstein í Safnasafninu á Svalbarðsströnd bauð honum að sýna í safninu árið 2002. Atli sýndi þar eggjabakkalist og snærisskó og Safnasafnið keypti af honum verk. Þetta varð til þess að Atla var boðið að taka þátt í fjölþjóðlegri sýningu Textílfélagsins á Kjarvalsstöðum árið 2004 þar sem hann sýndi skó úr snæri og baggaböndum. Árið 2007 tók hann þátt í samsýningu Huglistar í Safnasafninu á hátíðinni List án landamæra og einnig í samsýningu listamanna með geðraskanir í Rósenborg á Akureyri. Atli hélt áfram að vinna úr eggjabökkum og gerði m.a. leikmuni úr þeim fyrir fjöllistasýninguna Valhallabank á Akureyri 2009 og eggjabakkaverk eftir hann var valið til að prýða almanak Sorpu það sama ár. Árið 2011 skapaði Atli svo heila bylgjupappafjölskyldu og sýndi á Safnasafninu. Segja má að þar hafi endurvinnslulist hans náð nýjum hæðum.  Atla bauðst í framhaldinu að hafa einkasýningu á verkum sínum í Hafnarborg -menningar -og listamiðstöð Hafnarfjarðar, vor ið 2012. Sýningin þar bar heitið Skjaldarmerkið hennar Skjöldu og var á dagskrá Listar án landamæra. Meðal verka á sýningunni var nýtt skjaldarmerki Íslands, unnið í bylgjupappa.

Þar sem Atli er að mestu sjálfmenntaður listamaður kemur alþýðulist upp í hugann. Margir þekktustu alþýðulistamenn okkar hafa ýmist verið málarar eða gert tvívíð verk í tré eða önnur efni. En Atli er með meiri rætur í dægurmenningu og fjölbreyttri neyslumenningu. Hann er sjálfmenntaður fjöllistamaður, hefur skrifað ljóð, leikrit og smásögur og samið tónlist auk þess að sinna myndlist. Verk sín hefur hann jafnan gefið út sjálfur, tónlistina á hljóðsnældum og ritverkin fjölrituð í ljósritunarvél. Segja má að Atli sé sem listamaður skilgetið afkvæmi neyslusamfélagsins þrátt fyrir að hafa alist upp á afskekktum bóndabæ. Hann hefur tileinkað sér að endurvinna það sem til fellur af umbúðum og afgöngum og notað til listsköpunar og hann hefur notað þau tæki og tól sem neyslusamfélagið lætur honum í té til að koma list sinni og skoðunum á framfæri. Sterk tilfinning fyrir formi og efni einkenna verk Atla og eins það viðhorf að ekkert efni sé öðru æðra. Það má tengja list hans við kreppuna með því að nýtni og natni eru þættir sem skipta hann máli. Hinsvegar er að mínu mati meginstefið í list Atla að hver sem er getur blómstrað í listsköpun, hvort sem hann hefur til þess menntun eða efni, allt er hægt og ekkert stöðvar skapandi huga í að finna sinn farveg.

Ólafur J. Engilbertsson