Gleðilegan jafnlaunadag!

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar

En það eru fleiri hópar sem þurfa að þola mjög alvarlega mismunun á íslenskum vinnumarkaði. Sumir þeirra fá ekki einu sinni tækifæri til að láta mismuna sér hvað varðar laun því að þeir fá engin störf. Það er hlutskipti mjög margs fatlaðs fólks. Fólks sem vill vinna og getur unnið en ósveigjanlegur og kröfuharður vinnumarkaður gefur þeim engin tækifæri til þess. Og það er ekki bara einkageirinn sem stendur sig almennt allt of illa við það. Því að eins ótrúlegt og það kann að hljóma er sömu sögu að segja um flestar opinberar stofnanir og fyrirtæki. Stofnanir og fyrirtæki sem við eigum öll saman og fatlað fólk ekkert síður en aðrir landsmenn.

Nýgefin svör íslensku ráðherranna við fyrirspurn á Alþingi um hversu margir með skerta starfsgetu starfa í ráðuneytum þeirra varpa sorglegu ljósi á þetta, Í þeim svörum kemur nefnilega fram að í mörgum ráðuneytanna starfar enginn með skerta starfsgetu. Þetta hlýtur að vekja sérstaka furðu í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

Fyrsta skref af hálfu stjórnvalda verður að skipuleggja framboð hlutastarfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu en á síðari stigum er mikilvægt að atvinnulífið taki virkan þátt í því verkefni.

Hvort þetta voru bara orð á blaði sem enginn meinti skal ósagt látið en þessi frammistaða verður seint talin gott dæmi um að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi. Þð hlýtur að vekja sérstaka furðu og alvarlegar spurningar að í félagsmálaráðuneytinu sem fer með málefni fatlaðs fólks og jafnframt með atvinnumál í landinu starfar enginn með skerta starfsgetu. Í svörum ráðherranna kom líka fram að ekkert ráðuneytið hefur mótað sérstaka stefnu um ráðningar einstaklinga með skerta starfsgetu.

Það er grundvallaratriði og algjör forsenda þess að fatlað fólk tækfæri á vinnumarkaði, eins og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að að gera með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að vinnuveitendur bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera sýni áhuga og vilja til þess í verki en ekki bara orði. Fyrirtæki sem gefa sig út fyrir að vinna í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og vilja láta taka sig alvarlega verða að skilja og virða að meginmarkmið þeirra er að „skilja engan eftir“.

Fatlað fólk sem vill vinna og getur unnið en fær engin tækifæri til þess er algjörlega háð framfærslu almannatrygginga, jafnvel allt sitt líf. Þær bætur eru svo lágar að þær ættu frekar að kallast „fátæktarbætur ríkisins“. Þessar bætur eru umtalsvert lægri en atvinnuleysisbætur, sem flestir eru sem betur fer bara háðir tímabundið en þorri þjóðarinnar er sammála um að séu of lágar. Örorkubæturnar er miklu lægri en lágmarkslaun á vinnumarkaði, sem enginn er þó of sæll af.

Þessi sultarkjör leiða ekki aðeins til þess að fatlað fólk býr við fátækt, heldur einnig til þess að það hefur ekki raunhæfan möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í íslensku samfélagi. Með þessum lágu örorkubótum skerða íslensk stjórnvöld raunhæf tækifæri fatlaðs fólk til að njóta margvíslegra efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra mannréttinda sem og stjórnmálalegra og borgaralegra réttinda. Allt fer það augljóslega í bága við skyldur stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp óska ríkisstjórninni og landsmönnum öllum gleðilegs jafnlaunadags.

Höfundur er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

 

Greinin birtist fyrst á vefsíðu Fréttablaðsins þann 18. september 2020.