Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, 102. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, 102. mál

     28. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans og tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi og alla þá vernd sem mælt er fyrir um í samningnum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er hafin sérstök landsáætlun um innleiðingu hans undir stjórn félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar, segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
… (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun. Þar segir:

      1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.) 

19. gr. samningsins hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lÍfi og án aðgreiningar í samfélaginu. Þar segir:

Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess aðfatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, ... (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

20. gr. samningsins hefur yfirskriftina Ferlimál einstaklinga. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því … að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti og á þeim tíma sem það kýs og á viðráðanlegu verði, ...

10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, hefur yfirskriftina Bifreiðakostnaður og hljóðar svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar. Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðarsem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.

Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði. (Feitletr. Þroskahj.)

Augljóst er, mati Landssamtakanna Þroskahjálpar, að tilgangur og markmið með þessum mikilvægu styrkjum, sem kveðið er á um 10. gr. laga um félagslega aðstoð, m. s. br., er að gera þeim sem uppfylla skilyrði til að geta notið þeirra kleift að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og tækifæri til fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, eins og það er orðað í 19. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Og að tryggja að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði þess í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því … að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti og á þeim tíma sem það kýs og á viðráðanlegu verði, eins og það er orðað í 20. gr. samningsins. 

Fatlað fólk sem vegna þroskahömlunar og/eða einhverft fólk sem getur ekki vegna þeirrar fötlunar sinnar nýtt sér almenningssamgöngur eða ferðaþjónustu en uppfyllir ekki skilyrði 10. gr. laga um félagslega aðstoð varðandi hreyfihömlun, hamlaða líkamsstarfsemi eða að líkamshluta vanti hefur ekki aðgang að þessum styrkjum samkvæmt núgildandi lögum. Þarfir þess, sem og réttindi samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eru þó þær sömu, hvað varðar tækifæri til að komast ferða sinna og hafa þar með raunhæfa möguleika til „fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar" og þeirra sem teljast uppfylla þessi skilyrði, og geta því notið þessara styrkja. Aðstæður þeirra og þarfir eru m.ö.o. sambærilegar í lagalegu tilliti og ættu því lagaleg réttindi þeirra að þessu leyti að vera þau sömu, sbr. jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar annarra íslenskra laga, jafnræðisreglu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og annarra fjölþjóðlegra mannréttindaasamninga sem íslenskra ríkið hefur undirgengist.

Landssamtökin Þroskahjálp telja því ljóst að í núgildandi ákvæðum 10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, m s. br., felist mismunun á grundvelli fötlunar hvað varðar mikilsverðan stuðning og þau tækifæri og réttindi sem eru augljóslega háð þeim stuðningi.

Samtökin telja vera Ijóst að sú mismunun sé ómálefnaleg og óréttlát og gangi berlega gegn samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og skyldum Íslenska ríkisins samkvæmt samningnum. Þá telja samtökin að þessi mismunun á grundvelli fötlunar standist ekki ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar, sbr. 65. og 76. gr. hennar.

Þá er ljóst að þetta fyrirkomulag varðandi umrædda styrki er mjög til þess fallið að bitna verst á þeim einstaklingum, sem vegna þroskahömlunar og/eða einhverfu eða skyldra fatlana, geta ekki nýtt sér almenniningssamgöngur eða akstursþjónustu og hafa ekki efni á að eiga og reka bifreið eða eiga ekki aðstandendur sem geta styrkt þá til þess. Þeir einstaklingar þurfa því einnig að þola mismunun um margvísleg og mjög mikilsverð tækifæri til þátttöku í samfélaginu á grundvelli efnahags.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á velferðarnefnd Alþingis og félags- og vinnumarkaðsráðherra að láta, svo skjótt sem verða má, fara fram endurskoðun á ákvæðum 10. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, m.t.t þess sem að framan er rakið.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með velferðarnefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum, áherslum og tillögum.

Afrit af umsögninni er sent Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má lagafrumvarpið sem umsögnin á við hér.