Viðtal við Fabiana Morais, starfsnema Þroskahjálpar

Fabiana Morias, starfsnemi Þroskahjálpar.
Fabiana Morias, starfsnemi Þroskahjálpar.

Viðtal tekið af Hauki Hákoni Loftssyni, 8. apríl 2023.

Hvað heitir þú og hvað ertu gömul?

Ég heiti Fabiana Morais og ég er 20 ára. Ég er frá Porto í Portúgal en hef búið á Íslandi frá því ég var 9 ára gömul.

Af hverju valdirðu að koma til Þroskahjálpar í starfsnám?

Ég vildi koma til Þroskahjálpar því mér finnst að það þurfi að mótmæla fyrir fatlað fólk. Mér finnst fatlað fólk gefast oft upp á draumum sínum, en þau mega alls ekki gera það.

Hvað langar þig að vinna við í framtíðinni?

Mig langar að gera eitthvað fyrir samfélagið mitt, breyta til betra og gera eitthvað gott. Það þarf alltaf að vera einhver sem gerir það og það er draumur minna að vera sú sem gerir það.

Þú ert í diplómanáminu í Háskóla Íslands, hvað finnst þér skemmtilegast og mest krefjandi í háskólanáminu?

Mér finnst skemmtilegast að vera með bæði kennurunum og nemendunum. Það er allir svo skemmtilegir og ég á góð samskipti við alla. Það eru ekki allir sem geta átt það.

Það er stundum erfitt lesefni, til dæmis er ég ekki nægilega góð í ensku og á erfitt með að lesa þungar bækur á ensku, þannig það getur verið krefjandi.

Hvernig er staða fatlaðs fólks í Portúgal?

Ég get alveg sagt að hún er ekki góð. Mér finnst staðan betri á Íslandi heldur en í Portúgal, til dæmis er ekki í boði í Portúgal fyrir fatlað fólk að fara í Háskólanám. Það er ömurlegt að segja það, en það er sannleikurinn að staðan er ekki góð þar.

Geturðu lýst draumadeginum þínum í stuttu máli?

Ég myndi bara vilja fara út að borða og skemmta mér með vinum og fjölskyldu.

Hverju leitar þú að í besta vini?

Ég leita alltaf í fólk sem er gott við aðra, sem hjálpa og eru jákvæð. Ég leitast eftir að vera með fólki sem er skemmtilegt og fyndið. Hjálpsemi skiptir mig miklu máli.

Hvaða frægu manneskju myndirðu vilja hitta?

Ég myndi vilja hitta BTS sönghópinn (kóresk strákahljómsveit).  Ég elska að hlusta á þá. Mig langar mikið að hitta þá. Það getur verið erfitt að fara á tónleika með þeim, en ef ég fengi bara eina sekúndu með þeim væri það ótrúlega gaman.