Viðtal við Hauk Hákon, starfsnema Þroskahjálpar.

Haukur Hákon, starfsnemi Þroskahjálpar 2023.
Haukur Hákon, starfsnemi Þroskahjálpar 2023.

Viðtalið er tekið af Fabiana Morais, 8. mars 2023.

Hvað heitir þú og hvað ertu gamall?

Ég heiti Haukur Hákon og ég er 22 ára gamall.

Af hverju vildirðu koma til þroskahjálpar í starfsnám?

Mig langaði að dýpka þekkingu mína á mannréttindamálum. Ég hef unnið fyrir Þroskahjálp áður og vil alltaf gera allt sem ég get til að stuðla að réttindum fatlaðs fólks. Þess vegna er þetta frábær vettvangur til að gera eitthvað nýtt og spennandi.

Hvað langar þig að vinna við í framtíðinni?

Ég hef mikið hugsað um það, hvað það er sem ég vil gera í framtíðinni og ég er auðvitað með alla möguleika opna. Það sem mig langar sem mest er að vinna við fjölmiðla. Ég hef gaman af því að tala við fólk, heyra skoðanir annarra og fræða á uppbyggilegan hátt. Svo eru fjölmiðlar bara svo spennandi! Í dag er það þannig að allir eru með sinn eigin fjölmiðil, í gegnum samfélagsmiðla, og eru að deila myndum og sögum frá sjálfu sér. Það er líka svo mikið framboð af efni og fræðslu og það þarf að fræða um ýmis mál. Mér finnst til dæmis skipta miklu máli að fötlun sé meira inni í umræðunni. Hún hefur auðvitað alveg verið í umræðunni en það þarf að ýta undir meiri og betri umræðu.

Svo er ég góður í að skrifa líka og hef gaman að því að skrifa, þannig að fjölmiðlarnir kalla vissulega á mig.

Hvað finnst þér skemmtilegast í háskólanáminu?

Það sem mér finnst nú aðalmálið í háskólanum er að fá að vinna með öðru fólki. Námsefnið er auðvitað krefjandi en maður fær dýpri skilning og málefnin sem við erum að fjalla um er eitthvað sem við höfum áhuga á. Það skiptir miklu máli í háskólanámi að læra eitthvað sem maður hefur áhuga á.

Það sem er erfiðast við námið er að ná að fylgjast með öllu sem er í gangi, en fyrir mig persónulega þá er það líka að maður þarf að muna svo margt. En ég hef lært að það er mikilvægt þegar maður er í háskólanámi að taka bara eitt skref í einu, þannig vinnur maður best.

Geturðu lýst draumadeginum þínum í stuttu máli?

Það fyrsta sem ég myndi gera á mínum draumadegi væri örugglega að fara í sund. Það er ekkert betra en að fara í heitan pott og gufu, ég tala nú ekki um saunu.

Svo væri það bara að hitta góða vini og eyða tíma með þeim, fara út að borða saman eða gera eitthvað skemmtilegt.

Svo finnst mér reyndar voða gott að vera líka í næði heima og hlusta á tónlist, ég hlusta mikið á tónlist.

Þú tókst þátt í verkefninu Römpum upp Reykjavík og Römpum upp Ísland. Geturðu lýst því aðeins fyrir okkur?

Ég kem inn í Römpum upp Reykjavík og Ísland alveg óvart. Ég var að leita mér að sumarvinnu og var ekki með neitt planað. Ég var að vísu búin að sækja um hjá VMST og var að fara í viðtal til þeirra þegar þetta tækifæri kom til. Ég vann svo meðfram þessu verkefni, römpum upp Reykjavík, á  mannréttinda og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur við að gera úttektir á undirgöngum. Það sem var krefjandi við rampana var að passa að allar upplýsingar sem við vorum að vinna með væru réttar.

Ég þurfti að fara að tala við mikið af fólk,sem var gaman, og svo þurfti ég að vinna út frá því. Þetta var rosalega skemmtileg vinna ogég kynntist mikið af skemmtilegu fólki. Ég var í góðu samstarfi við allt liðið, til dæmsi borgarstjóra, forseta Íslands og auðvitað við Harald Þorleifsson, sem átti hugmyndina að þessu öllu saman. Það voru svo margir sem komu að þessu og þetta var ótrúlega skemmtilegt.

Hverju leitar þú að í besta vini?

Það sem ég vill fyrst og fremst frá vinum mínum er það að ég geti treyst þeim. Svo þurfa þeir líka að vera einlægir og hafa góðan húmor og gleði, það skiptir miklu máli því annars er ekkert skemmtilegt að vera innan um fólk. Svo er líka gott að vera með fólki sem er gott í að hlusta og eru tilbúin til að hjálpa manni.

Hvaða frægu manneskju myndirðu vilja hitta?

Ég er nú svo heppinn að hitta fullt af fólki, en ef ég ætti að velja einhvern einn þá væri ég til í að hitta Barack Obama og setjast niður með honum og ræða málin. Mér þætti gaman að fá að vita hvernig staðan er hjá fötluðu fólki í Bandaríkjunum. Hann er mín fyrirmynd, því hann er fyrsti forseti Bandaríkjanna af erlendum uppruna. Ég er sjálfur af erlendum uppruna, en ég er ættleiddur frá Indlandi, og hann er fyrirmynd því hann braut vegginn. Svo er hann auðvitað líka svo mikill sjarmör, það er erfitt að dást ekki að honum.