Viðkvæmir hópar flóttafólks frá Úkraínu fá mótttöku

Mynd: Harvey Barrison
Mynd: Harvey Barrison

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að fela flóttamannanefnd að útfæra tillögur um sérstaka móttöku viðkvæmra hópa flóttafólks frá Úkraínu, og eftir atvikum tillögur sem eru til þess fallnar að létta á álagi í nágrannaríkjum Úkraínu vegna fjölda flóttafólks.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að ríkisstjórnin telji mikilvægt að huga að hópum sem eru í sérlega viðkvæmri stöðu. Þá muni flóttamannanefnd leita bæði til sveitarfélaga og stofnana um hvar sé svigrúm til þess að veita slíka aðstoð, ásamt því að leita til félagasamtaka sem hafa sérþekkingu á þeim hópum sem um ræðir, t.d. til Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands, Samtakanna ´78 og Ljóssins.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessum aðgerðum stjórnvalda í þágu jaðarsettra hópa í Úkraínu, og hafa átt opið og gott samtal við stjórnvöld s.l. vikur.