Umboðsmaður Alþingis úrskurðar um mismunun vegna rafrænna skilríkja

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu í áliti að Vegagerðin hafi brotið á réttindum fatlaðs manns vegna þess hvernig staðið var að því að bjóða upp á stafræna þjónustu í tengslum við Loftbrú, þar sem fólk á landsbyggðinni getur fengið afsláttarkjör á flugmiðum.

Lesa úrskurðinn

Málið snérist um það að fötluðum manni var neitað um að fá slík afsláttarkjör á flugmiðum vegna þess að hann hafði ekki aðgang að rafrænum skilríkjum. Málið var að mati Þroskahjálpar grafalvarlegt, en samtökin hafa ítrekað bent á þau mannréttindabrot sem íslensk stjórnvöld fremja á stafænni vegferð sinni.

Álit umboðsmanns Alþingis er stór varða í baráttu Þroskahjálpar, enda segir þar að umboðsmaður telji að þetta mál og önnur gefi tilefni til að vekja athygli á því að tæknilegar lausnir stjórnvalda taki lítið tillit til aðstæðna fólks.

 

Sú hætta geti skapast að fólk sem getur illa nýtt sér stafræna þjónustu njóti verri þjónustu, og  jafnvel alls ekki. Þegar mistök yrðu í tengslum við stafræn mál væri það oft kostnaðarsamt og dýrkeyptara en hefðbundin mannleg mistök.

Þá ítrekaði umboðsmaður að það væri mikilvægt að þau sem koma að hönnun rafrænna kerfa stjórnsýslunnar sé ljóst frá upphafi hvaða lagalegu og faglegu kröfur verði að uppfylla, en að það eigi ekki að hrinda þeim í framkvæmd og síðar koma í ljós hvaða gallar séu á kerfinu.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa óskað eftir viðbrögðum Stafræns Íslands og Félagsmálaráðuneytisins vegna úrskurðarins.